Fara í efni
Íþróttir

„Komum samt með tóma vasa heim“

Valþór Atli Guðrúnarson og þjálfararnir, Þorvaldur Sigurðsson og Halldór Örn Tryggvason. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar gengu afar vonsviknir af velli í Valsheimilinu í gærkvöldi, eftir 30:27 tap gagn heimamönnum í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildinni. Þór hafði nefnilega forystu nánast allan tímann; Valur komst þrisvar yfir í leiknum; fyrst 19:18 á 38. mínútu, 27:26 og svo 28:27 – og gerði þrjú síðustu mörkin, því lokatölur urðu 30:27.

„Ég er mjög ánægður með framlag drengjanna, en okkar akkilesarhæll er að ná ekki að klára svona leiki. Segja má að okkur hafi verið færður rétturinn og við áttum að klára hann en gerðum ekki,“ sagði Þorvaldur Sigurðsson, annar þjálfara Þórsliðsins, við Akureyri.net. „Mér fannst við synda dálítið á móti straumnum síðustu mínúturnar, bæði varðandi dómgæslu og svo meiðsli Valþórs; dómararnir sýndu okkar ungu drengjum ekki sömu virðingu og Valsmönnum hinum megin á vellinum. En barátta drengjanna var hetjuleg.“

Þorvaldur sagði sóknarleik Þórsliðsins án efa þann besta til þessa í vetur. „Menn voru mjög hreyfanlegir og viljugir, en æfingaleysi dró greinilega aðeins úr mönnum þegar leið á. Við spiluðum ekki einn einasta æfingaleik áður en mótið hófst aftur. Við náðum leysa varnarleik þeirra vel lengst af en hefðum mátt standa aðeins betur varnarlega sjálfir.“

Hann er sem sagt ánægður að mörgu leyti. „Já, þetta lítur ágætlega út á pappírnum en við komum samt með tóma vasa heim. Ég er þó stoltur að vissu leyti og mjög ánægður með hvernig drengirnir börðust vel hver fyrir annan, okkur fannst samstaðan skína í gegn.“

Þórsarar urðu fyrir því áfalli að Karolis Stropus var rekinn út af í tvær mínútur í þriðja skipti þegar aðeins tæpar þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og kom því ekki meira við sögu. „Það var fyrir mjög litlar sakir, Valsarinn lék það dálítið vel og gerði svo bara grín að dómnum á eftir. Svo var það auðvitað áfall að missa Valþór út af og því má bæta við að okkar fyrsti línumaður, Þórður Tandri, var ekki með – hann er meiddur og varð eftir fyrir norðan. En þeir sem komu inn í liðið í staðinn tóku við keflinu og gerðu það mjög vel.“

Arnór Þorri Þorsteinsson kom til dæmis af miklum krafti inn á eftir að Valþór meiddist. Hann lék um kafla í fyrri hálfleik en tók af skarið í seinni hálfleik og gerði þrjú glæsileg mörk.

Mörkin skiptust annars þannig: Valþór Atli Guðrúnarson 6, Ihor Kopyshynskyi 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Sigurður Kristófer Skjaldarson 3, Karolis Stropus 3, Garðar Már Jónsson 2, Hafþór Ingi Halldórsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 1, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 1. Jovan Kukobat varði 10 skot, þar af eitt víti. Fékk á sig 40 skot – varði því 25% skotanna.

Næsti leikur Þórsara er gegn Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði um helgina.