Fara í efni
Íþróttir

Kjólar, vín og litrík gleði í Kjarnaskógi – MYNDIR

Glæsilegir keppendur með útbúnaðinn á hreinu! Mynd: RH

Sumarkjóla- og freyðivínshlaupið fór fram í Kjarnaskógi í gær, fimmtudaginn 31. ágúst kl 17.00. Glæsilegir keppendurnir voru á bilinu 300-400 talsins og segir Maríanna Margeirsdóttir, sem skipuleggur hlaupið, að mætingin hafi farið fram úr björtustu vonum. Þátttaka er ókeypis, 20 ára aldurstakmark og hver keppandi beðinn um að koma með eina freyðivínsflösku í púkk. Blaðamaður Akureyri.net lét sig ekki vanta og tók myndir af íþróttafólkinu, en mikil gleði var í skóginum og allir sigurvegarar. Örlítið dropaði á hlauparana til að byrja með, en það rættist úr veðrinu fljótlega.

„Veðrið var með pínu vesen en það stoppaði engan og líkt og í fyrra var ekki dropi eftir af freyðivíni,“ segir Maríanna, en hún var að halda þetta hlaup í annað sinn, vegna þess hve vel gekk í fyrra. „Það er svo gaman að sjá hversu fjölbreyttur hópur þetta var sem sótti viðburðinn, margir sem komu ekki í fyrra en eru orðnir fastagestir framvegis, reikna ég með!“

 

Maríanna er mikil stemningskona og viðburðurinn er hennar hugmynd. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Fær góða aðstoð frá vinum, vandamönnum og fyrirtækjum

„Ég er í raun ein að standa að þessum viðburði, en er með góðar vinkonur og fjölskylduna sem kom og aðstoðaði á drykkjarstöðvunum og að setja upp fyrir viðburðinn,“ segir Maríanna. „Það eru Sigrún Dóra, Vala Hrönn, Ásdís Inga, Guðrún Vaka, Helena Hrund, Glódís og Helga Nína og mamma og pabbi stóðu vaktina líka!“

„Ég fékk virkilega flotta styrki frá fyrirtækjum til þess að gera viðburðinn aðeins flottari og skemmtilegri og var það til dæmis vín frá CCEP, Bílaleiga Akureyrar reddaði mér bíl til að koma öllu til og frá skóginum, Innnes græjaði snakk handa öllum. En ég er algjörlega í skýjunum með gærdaginn, það gekk allt upp og held að allir hafi skemmt sér konunglega,“ segir Maríanna að lokum.