Fara í efni
Íþróttir

Kjarnafæðismótið: 12 mörk í tveimur leikjum

Hulda Ósk Jónsdóttir, til vinstri, og Margrét Árnadóttir gerðu tvö mörk hvor í gærkvöldi en Sveinn M…
Hulda Ósk Jónsdóttir, til vinstri, og Margrét Árnadóttir gerðu tvö mörk hvor í gærkvöldi en Sveinn Margeir Hauksson bætti um betur og skoraði þrjú. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Mikið var skorað í leikjunum tveimur í Kjarnafæðismótinu í fótbolta, æfingamóti á vegum norðlenskra dómara, sem fram fóru í Boganum í gærkvöldi. Hvorugur leikurinn var þó jafn; aðallið KA sigraði Þór2 5:1 og í kvennariðlinum sigraði Þór/KA lið Völsungs 6:0.

KA-menn tryggðu sér í raun sigur strax á fyrstu 20 mínútunum með fjórum mörkum, áður en Þórsarar minnkuðu muninn.

Sveinn Margeir Hauksson gerði þrjú mörk og þeir Andri Fannar Stefánsson og Nökkvi Þeyr Þórisson sitt markið hvor.

Margrét Árnadóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir gerðu tvö mörk hvor gegn Völsungi og þær Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir eitt hvor.