Kjarnafæðimótið: KA og Þór komin í úrslit
Karlalið KA og Þórs tryggðu sér um helgina sæti í úrslitaleik A-deildar Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu en segja má að ákveðin „hefð“ sé fyrir því að þessi lið leiki til úrslita á mótinu. Úrslitaleikurinn er fyrirhugaður um mánaðamótin mars/apríl.
Leiðin í úrslitaleikinn fyrir þessi norðlensku stórveldi reyndist samt ansi grýtt að þessu sinni en hvorugt liðanna náði að vinna sinn riðil. Það var ungmennalið Þórs (Þór2) sem varð í efsta sæti A-riðils og KA lenti í öðru sæti. Magni bar sigur úr býtum í B-riðli og Þór náði öðru sætinu á betri markatölu en ungmennalið KA.

Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvisvar fyrir KA gegn Magna. Til vinstri er Birkir Már Hauksson. Mynd: Knattspyrnudómarafélag Norðurlands.
Í undanúrslitum um helgina áttust við annars vegar Magni og KA og hins vegar Þór og Þór2. KA lenti ekki í neinum vandræðum með Magna á Greifavellinum og lokatölur urðu 6:0. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvisvar og þeir Birgir Baldvinsson, Valdimar Logi Sævarsson, Bjarki Fannar Helgason og Snorri Kristinsson gerðu hin mörkin.

Þórsararnir Ágúst Eðvald Hlynsson, Kári Jónsson og Atli Þór Sindrason í leik helgarinnar. Mynd: Knattspyrnudómarafélag Norðurlands.
Viðureign Þórsliðanna tveggja í Boganum var öllu jafnari og raunar voru strákarnir í Þór2 betri aðilinn í leiknum lengi vel. Það var ekki fyrr en eftir að Hektor Bergmann Garðarsson kom Þór yfir í seinni hálfleik að leikurinn snerist og þeir Christian Greko Jakobsen og Peter Ingi Helgason bættu við mörkum. Lokatölur 3:0 í skemmtilegum leik.
Það er Knattspyrnudómarafélag Norðurlands (KDN) sem stendur fyrir Kjarnafæðimótinu en leikið er í A- og B-deild karla, auk kvennadeildar. Í B-deildinni eru Tindastóll og KF búin að tryggja sig í undanúrslit úr A-riðli, þrátt fyrir að eiga innbyrðisleikinn eftir. B-riðillinn var jafnari en þar bar Þór3 sigur úr býtum og Höttur náði öðru sætinu.
Kvennadeildin er skemmra á veg komin en þar taka 5 lið þátt.
Finna má öll úrslit Kjarnafæðimótsins á vefsíðu KDN.