Fara í efni
Íþróttir

Kemst KA í bikarúrslit annað árið í röð?

KA-menn síðast þegar Valsmenn komu í heimsókn á Greifavöllinn. Sunnanmenn unnu þá 4:0 í Bestu deildinni í maí á síðasta ári. Mynd: Þórir Tryggvason

KA fær Val í heimsókn í kvöld í undanúrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar. Með sigri tryggja KA-menn sér sæti í bikarúrslitum annað árið í röð en Valsmenn hafa ekki leikið til úrslita síðan 2016 þegar þeir urðu bikarmeistarar með 2:0 sigri á ÍBV.

Leikurinn hefst á Greifavellinum kl. 18.00.

Liðin hafa mæst einu sinni á þessu ári og þá höfðu Valsmenn betur, 3:1, á heimavelli í Bestu deild Íslandsmótsins í maí. Þá vann Valur báða leiki liðanna í Bestu deildinni á síðasta ári. KA-menn hafa rétt úr kútnum undanfarið eftir mótbyr og unnið tvo síðustu leiki í deildinni, gegn Fram á heimavelli og síðast gegn HK í Kópavogi. Valsmenn töpuðu aftur á móti síðasta leik í deildinni 3:2 fyrir ÍA á Akranesi.

KA er í 10. sæti deildarinnar með 11 stig að loknum 12 leikjum og Valur í þriðja sæti með 25 stig eftir 13 leiki en margoft hefur verið bent á að fegurð bikarkeppninnar felst ekki síst í því að staða liða í deild skiptir ekki máli þegar út á völlinn er komið. Því verður fróðlegt að fylgjast með viðureign liðanna í kvöld.