Fara í efni
Íþróttir

KA tapaði og er áfram í fjórða sæti

Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA. KA-menn vildu fá vítaspyrnu þegar leikmaður Breiðabliks steig ofan á fót Ásgeirs í vítateignum og fyrirliðinn féll við, stuttu fyrri leikhlé, en ekkert var dæmt. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-mönnum mistókst að komast upp að hlið Víkings í annað sæti efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu þegar þeir töpuðu, 2:0, fyrir Breiðabliki í Kópavogi í kvöld. Lið Breiðabliks komst með sigrinum upp í annað sæti, er aðeins einu stigi á eftir Íslandsmeisturum Vals, Víkingur er þremur stigum á eftir Val og KA er í fjórða sæti, þremur stigum á eftir Víkingi.

KA á fimm leiki eftir í deildinni og mætir Breiðabliki aftur strax á miðvikudaginn á Akureyri. Víkingur og Valur mætast á morgun.

Breiðablik var betra liðið í kvöld og ekki hægt að halda öðru fram en sigurinn hafi verið sanngjarn. Hins vegar fengu KA-menn góð tækifæri til að skora, bæði Ásgeir Sigurgeirsson í fyrri hálfleik og Hallgrímur Mar í þeim seinni; Hallgrímur fékk mjög gott færi en skaut rétt framhjá áður en Blikarnir gerðu seinna markið. Fyrra markið skoruðu þeir rétt fyrir miðjan fyrri hálfleik.

Þegar langt var liðið á fyrri hálfleikinn, í stöðunni 1:0, vildu KA-menn fá vítaspyrnu en fengu ekki, þegar Alexander Helgi Sigurðarson braut á Ásgeiri Sigurgeirssyni innan vítateigs. Ekki fer á milli mála í sjónvarpsupptöku að Blikinn sparkar í Ásgeir en dómarinn sá það ekki. 

„Upplifunin mín af atvikinu í leiknum er sú að ég sé þá koma saman og ég sé Breiðabliksmanninn taka boltann, hafandi séð þetta þarna þá virðist KA maðurinn fara í boltann aðeins á undan. Blikamaðurinn fer augljóslega í KA manninn en mér fannst í leiknum eins og hann færi í boltann," sagði dómarinn í viðtali við Stöð 2 Sport strax eftir leikinn. Hann sagði aðstoðardómarann hafa verið sammála um að þetta hafi ekki verið víti. „Við tölum saman í þessu. Við vorum sammála um að Blikinn hafi leikið boltanum, sem hann gerir. Upplifunin okkar beggja var að hann hafi verið á undan í boltann og þess vegna tókum við þá ákvörðun sem var tekin á vellinum í kvöld."

Að sjálfsögðu er blóðugt fyrir KA-menn að hafa ekki fengið dæmda vítaspyrnu. Ekki þýðir þó að dvelja við þá staðreynd heldur snúa sér strax að næsta verkefni, sem verður ekki síður erfitt; að mæta Breiðabliki strax aftur á miðvikudaginn á heimavelli. KA-menn verða að sigra þá til að missa efstu þrjú liðin ekki of langt fram úr sér.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.