Fara í efni
Íþróttir

KA strákarnir töpuðu fyrir Stjörnunni

Einar Rafn Eiðsson var markahæstur KA-manna eins og svo oft áður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tapaði með fimm marka mun, 33:28, fyrir Stjörnunni í Garðabæ í kvöld, í Olís deild karla í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins.

Stjarnan náði frumkvæðinu strax í upphafi og hafði fjögurra marka forystu í hálfleik, 18:14. KA-menn minnkuðu muninn niður í eitt mark fljótlega í seinni hálfleik, Garðbæingar spýttu þá í lófana á ný og höfðu þriggja til fjögurra marka forystu allt þar til fjórar mínútur að KA-menn voru aðeins tveimur mörkum á eftir gestgjöfunum. Nær komust þeir ekki og Stjarnan vann með fimm marka mun sem fyrr segir.

Eftir sigurinn er Stjarnan áfram í sjöunda sæti en hefur nú 13 stig, Grótta gerði jafntefli við ÍBV í Eyjum og fór upp fyrir KA, hefur 11 stig í áttunda sæti, en KA er í níunda sæti með 10 stig. HK, sem tapaði fyrir Aftureldingu í kvöld, er í 10. sæti með níu stig. Nokkrar umferðir en eins og staðan er núna verður baráttan um tvö síðustu sætin í úrslitakeppninni á milli þessara fjögurra liða.

Mörk KA: Ein­ar Rafn Eiðsson 8 (5 víti), Jens Bragi Bergþórs­son 5, Skarp­héðinn Ívar Ein­ars­son 4, Dag­ur Árni Heim­is­son 4, Ott Varik 2, Daði Jóns­son 2, Arn­ór Ísak Hadds­son 2, Ein­ar Birg­ir Stef­áns­son 1.

Var­in skot: Bruno Bernat 6 (23,1%), Nicolai Horntvedt Kristen­sen 2 (13,3%).

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.