Fara í efni
Íþróttir

KA-menn urðu að játa sig sigraða í Hafnarfirði

Jón Heiðar Sigurðsson, Einar Birgir Stefánsson og félagar í KA léku vel í 45 mínútur í Hafnarfirði í…
Jón Heiðar Sigurðsson, Einar Birgir Stefánsson og félagar í KA léku vel í 45 mínútur í Hafnarfirði í kvöld en urðu að játa sig sigraða. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tapaði fyrir Haukum, 27:24, í Olís deildinni í handbolta í kvöld í Hafnarfirði í hörkuleik.

KA-menn voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11, og höfðu yfirhöndina í 45 mínútur. Þeir gáfu hins vegar eftir síðasta stundarfjórðunginn; þegar kortér var eftir komust Haukar yfir í fyrsta skipti, 19:18. Þeir náðu svo fjögurra marka forystu í tvígang, 24:20 og 25:21, en KA-menn neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í eitt mark, 25:24. Haukar gerðu svo tvö síðustu mörkin í blálokin.

Valur vann Aftureldingu í kvöld, Grótta vann Víking og Stjarnan sigraði HK. Tveir leikir verða á morgun, Selfoss - ÍBV og Fram - FH.

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur hjá KA með 7 mörk (3 víti), Patrekur Stefánsson gerði 5, Allan Norðberg og Ólafur Gústafsson 3 hvor, Arnar Freyr Ársælsson 2 og Ragnar Snær Njálsson, Einar Birgir Stefánsson, Jón Heiðar Sigurðsson, og Jóhann Geir Sævarsson 1 hver. Nicholas Satchwell varði 11 skot – 33% markvarsla.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Staðan er þessi í deildinni:

 • Haukar 20 leikir – 32 stig
 • Valur 20 leikir – 30 stig
 • ÍBV 19 leikir – 27 stig
 • FH 19 leikir – 26 stig
 • Stjarnan 20 leikir – 22 stig
 • Selfoss 19 leikir – 22 stig
 • KA 20 leikir – 20 stig
 • Afturelding 20 leikir – 19 stig

_ _ _ _ _

 • Grótta 20 leikir – 17 stig
 • Fram 19 leikir – 14 stig
 • HK 20 leikir – 4 stig
 • Víkingur 20 leikir – 3 stig

KA á tvo leiki eftir í deildinni, gegn Selfossi á heimavelli miðvikudag 6. apríl og gegn Gróttu á Seltjarnarnesi sunnudaginn 10. apríl.