Fara í efni
Íþróttir

KA-menn klaufar að tapa fyrir Aftureldingu

Árni Bragi Eyjólfsson, lang markahæsti KA-maður gærkvöldsins, reynir að komast í gegnum vörn Afturel…
Árni Bragi Eyjólfsson, lang markahæsti KA-maður gærkvöldsins, reynir að komast í gegnum vörn Aftureldingar. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

KA-menn voru miklir klaufar að tapa fyrir liði Aftureldingar í Olísdeildinni í handbolta í KA-heimilinu í gærkvöldi. Gestirnir unnu 25:24 eftir að KA-menn höfðu verið í nokkuð þægilegri stöðu þegar liðlega helmingur var búinn af seinni hálfleik.

KA var yfir í hálfleik, 13:11, eftir mikla baráttu. Heimamenn höfðu áfram yfirhöndina í seinni hálfleik og munurinn var fjögur mörk, 19:15, þegar 12 mínútur voru eftir. Þá small hins vegar allt í baklás hjá þeim; það var eins og slökknaði á heimamönnum í sjö mínútur, gestirnir úr Mosfellsbæ gerðu þá sjö mörk í röð á meðan KA-menn klúðruðu hverri sókninni á fætur annarri mjög klaufalega. Þegar fimm mínútur voru eftir var staðan orðin 22:19 fyrir Aftureldingu og KA náði ekki að brúa það bil.

Afturelding er sem fyrr eina lið deildarinnar sem ekki hefur tapað leik í vetur – er með 9 stig eftir 5 leiki. KA er nú með 4 stig að loknum 5 leikjum.

Vörn KA-manna var í lagi á löngum köflum, en enginn þeirra stóð sig vel í sókn að Árna Braga Eyjólfssyni undanskildum. Hann var lang markahæstur með 10 mörk, þar af 2 úr víti. Jóhann Geir Sævarsson, Áki Egilsnes og Daði Jónsson gerðu 3 mörk hver, Ólafur Gústafsson 2 og Patrekur Stefánsson, Einar Birgir Stefánsson og Ragnar S. Njálsson 1 hver. Markvörðurinn Nicholas Satchwell varði 13 skot.