Fara í efni
Íþróttir

KA mætir Víkingi á Greifavellinum í dag

Úr leik liðanna á Greifavellinum í fyrra. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA og Víkingur Reykjavík mætast á Greifavellinum, sunnan við KA-heimilið í dag. Leikurinn er hluti af 13. umferð Bestu deildar karla en leiknum er flýtt vegna þátttöku liðanna í evrópukeppnum seinna í sumar.

Fyrir leikinn er KA liðið í sjötta sæti deildarinnar með 11 stig. Víkingar eru í efsta sætinu með 24 stig og hafa þeir unnið alla sína leiki í sumar. Meðal annars einn leik gegn KA en liðin mættust á Víkingsvelli í fjórðu umferð deildarinnar í apríl. Þar gerði Gunnar Vatnhamar eina mark leiksins í 1:0 sigri Víkinga sem Akureyri.net sagði frá HÉR

Í seinustu umferð töpuðu KA-menn 2:0 gegn liði Breiðabliks á meðan Víkingar unnu 2:1 sigur á HK í Kórnum. Liði KA hefur gengið illa á móti „stærri“ liðum deildarinnar hingað til, það er þau lið sem hafa unnið Íslandsmeistaratitla undanfarin fimm ár. Valur, Breiðablik og Víkingur. Liðið hefur spilað einu sinni við hvert lið, tapað öllum og enn ekki skorað mark. Spurning hvort breyting verði þar á í dag.

Töluvert er af forföllum í varnarlínu KA fyrir leikinn. Ívar Örn Árnason er í leikbanni og í síðasta leik meiddust bæði Hrannar Björn Steingrímsson og Birgir Baldvinsson. Það verður því áhugavert að sjá hvernig Hallgrímur Jónasson þjálfari stillir upp varnarlínunni í leiknum.

Leikurinn hefst klukkan 18:00 og er sýndur á Stöð2Sport.