Fara í efni
Íþróttir

KA-maður og Þórsari urðu Íslandsmeistarar!

Akureyringarnir Róbert Sigurðarson og Sigtryggur Daði Rúnarsson urðu Íslandsmeistarar í handbolta með liði ÍBV á miðvikudagskvöldið eftir frábært úrslitaeinvígi við Hauka. KA-maðurinn Róbert og Þórsarinn Sigtryggur Daði höfðu þá sigur ásamt félögum sínum í Eyjaliðinu í fimmta og síðasta úrslitaleiknum sem fram fór í Eyjum.

Þriðji Akureyringurinn í herbúðum ÍBV er KA-maðurinn Magnús Stefánsson aðstoðarþjálfari, sem tekur við starfi aðalþjálfara liðsins í sumar.

Stoltur af litla bróður

Með Haukaliðinu eru tveir Þórsarar, Geir Guðmundsson og Andri Már, litli bróður Sigtryggs Daða. Andri Már fór á kostum með Haukum í einvíginu, ekki síst í lokaleiknum en það dugði ekki til. En stóri bróðir komst ekki hjá því að hrósa þeim litla:

„Djöf­ull er Andri bróðir góður í hand­bolta,“ skrifaði Sigtryggur á Twitteraðgangi sín­um og hitti naglann sannarlega á höfuðið.

Sigtryggur bætti um betur í samtali við Akureyri.net:  „Það er sennilega skrítið að segja það en ég er jafn stoltur af Andra og af Íslandsmeistaratitlinum!“

Fjölskyldan var eðlileg spennt fyrir úrslitaeinvíginu eins og Akureyri.net fjallaði um áður en það hófst –  Akureyrarblær á úrslitarimmunni – Heiða Erlingsdóttir móðir þeirra, landsliðskona í handbolta á sínum tíma, og systirin Eva Ingibjörg, fylgdust með í návígi en Rúnar faðir strákanna Sigtryggsson, úr fjarlægð. Hann er þjálfari handboltaliðs Leipzig í Þýskalandi.

Bræðurnir ásamt móður þeirra og systur, eftir fyrsta úrslitaleikinn. Frá vinstri: Andri Már Rúnarsson, Eva Ingibjörg Rúnarsdóttir, Heiða Erlingsdóttir og Sigtryggur Daði Rúnarsson.