Fara í efni
Íþróttir

KA kærði og krafðist sigurs á Stjörnunni

KA-maðurinn Birgir Baldvinsson vekur athygli dómarans á því að liðið átti að fá víti í deildarleiknum gegn Stjörnunni á Greifavelli KA í júní. Krafan var ekki tekin til greina, ekki frekar en krafa KA til KSÍ vegna leiksins í Garðabæ um daginn. Myndir: Ármann Hinrik

Eftir dramatískan 3:2 tapleik gegn Stjörnunni í efstu deild karla í knattspyrnu þann 31. ágúst sl. sendi knattspyrnudeild KA inn kæru til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ. Kröfur KA voru þær að félaginu yrði dæmdur 3:0 sigur í leiknum og að þjálfara og/eða forráðamanni Stjörnunnar yrði gert að sæta leikbanni eða banni frá stjórnunarstörfum í allt að eitt ár. Í úrskurði nefndarinnar er ekki fallist á kröfur KA en hins vegar var Stjörnunni gert að greiða 150.000 króna sekt til KSÍ vegna ranglega útfylltrar leikskýrslu.

Knattspyrnudeild KA byggði kæru sína á því að Stjarnan hefði skilað leikskýrslu fyrir leik liðanna of seint og að hún hafi verið vísvitandi ranglega útfyllt. Nafn aðstoðarþjálfara Stjörnunnar hafi ekki verið sett á skýrsluna en hann hafi tekið fullan þátt í leiknum. Og þar sem Stjarnan hefði skilað leikskýrslunni of seint inn hefði verið enn meiri ástæða til að yfirfara hana betur. KA taldi að ekki hafi verið um mistök að ræða og vísaði til eldri mála fyrir aga- og úrskurðarnefnd KSÍ þar sem Stjarnan hafi verið sökuð um að fara á svig við reglur um útfyllingu og skil á leikskýrslum.

Ekki sannað að skýrslan hafi verið vísvitandi rangt útfyllt

Mótrök Stjörnunnar voru á þá leið að vegna mannlegra mistaka hafi útfylling skýrslunnar tafist og í flýtinum við að klára hana hafi farist fyrir að setja aðstoðarþjálfarann inn á skýrsluna. Samkvæmt reglugerð KSÍ er lið sem vísvitandi falsar leikskýrslu dæmdur 3:0 ósigur í viðkomandi leik. Aga- og úrskurðarnefndin taldi hins vegar að ekki hefðu verið leiddar fullnægjandi líkur að því að skýrsla Stjörnunnar hafi verið vísvitandi ranglega útfyllt. Umræddur aðstoðarþjálfari hafi fram að þessu verið á skýrslu liðsins fyrir deildarleiki og Stjarnan hefði því engan hag af því að tilgreina hann ekki á skýrslu þessa leiks. Nefndin taldi ekki unnt að líta til eldri mála í þessu samhengi, því sönnunarkröfum þyrfti að fullnægja í hvert sinn. Kröfur knattspyrnudeildar KA voru því ekki teknar til greina.

Hins vegar taldi nefndin ljóst að Stjarnan hefði brotið reglur um útfyllingu og skil á leikskýrslu með því að skila henni inn of seint og að einn starfsmann hafi vantað á skýrsluna. Stjarnan var því sektuð vegna þessa um 150.000 krónur.