Fara í efni
Íþróttir

KA gegn Þorvaldi, Grindvíkingar norður

KA mætir Stjörnunni og Þór dróst gegn Grindavík í 32 liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninni. Dregið var hádeginu og einnig í 16 liða úrslitum bikarkeppni kvenna. Þór/KA dróst gegn FH, sem leikur í næst efstu deild. Sú viðureign fer fram í Hafnarfirði og verður annað hvort 31. maí eða 1. júní.

Leikirnir í 32 liða úrslitum karlanna fara fram 22. til 24. júní. Leikur Stjörnunnar og KA verður í Garðabæ en Þór og Grindavík mætast á Akureyri.

Stjörnunni hefur gengið illa það sem af er Íslandsmótinu; hefur gert tvö jafntefli og tapað tveimur leikjum og aðeins gert tvö mörk í fjórum leikjum. KA er hins vegar á miklum skriði og á toppi Pepsi Max deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, eins og komið hefur fram, ásamt FH, Víkingi og Val. Þjálfari Stjörnunnar er KA-maðurinn Þorvaldur Örlygsson.

Þórsarar unnu Grindvíkinga sannfærandi í síðasta leik, 4:1, í 2. umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins. Þórsarinn Orri Freyr Hjaltalín, sem tók við þjálfun uppeldisfélagsins í vetur, bjó um árabil í Grindavík og lék þá með liðinu.