Fara í efni
Íþróttir

Ívar Örn framlengir við KA út árið 2026

Ívar Örn Árnason í leik KA og HK í lokaumferð Bestu deildarinnar í fyrrahaust þegar KA vann 1:0. Besta deildin hefst á ný eftir aðeins tvær og hálfa viku og þá verður HK fyrsti mótherjinn - liðin mætast á Greifavelli KA sunnudaginn 7. apríl. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ívar Örn Árnason skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út árið 2026.  Greint er frá tíðindinum á vef félagsins.

„Þetta eru gífurlega jákvæðar fréttir enda hefur Ívar verið í algjöru lykilhlutverki í Bestudeildarliði KA undanfarin ár,“ segir á vef KA og óhætt að taka undir það. Ívar hefur verið einn besti leikmaður liðsins síðustu tvö ár og mikilvægt fyrir félagið að hann verði um kyrrt.

„Ívar er 27 ára gamall og hefur verið einn besti miðvörður Bestu deildarinnar undanfarin ár en ekki nóg með að vera frábær varnarmaður er Ívar magnaður karakter sem gefst aldrei upp sem drífur liðsfélaga sína áfram. Ívar er uppalinn hjá KA og alltaf tilbúinn að gefa sig allan fyrir félagið og þá var faðir hans, Árni Freysteinsson, leikmaður í Íslandsmeistaraliði KA sumarið 1989,“ segir í tilkynningunni á vef KA.

„Ívar náði stórum áfanga síðasta sumar er hann lék sinn 100. leik fyrir KA en leikirnir eru nú orðnir 121 talsins. Þrátt fyrir að spila sem miðvörður í hjarta varnarinnar fór hann fyrir markaskorun liðsins í bikarævintýri síðasta sumars er hann gerði þrjú mörk á leið KA í fyrsta bikarúrslitaleik félagsins síðan sumarið 2004.“