Hársbreidd frá stigi gegn meistaraefnunum

Þór tapaði í gærkvöldi með einu marki fyrir Val, 28:27, í Olísdeildinni í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. Aðeins hársbreidd munaði að nýliðar Þórs næðu í stig gegn Valsmönnum, sem spáð er Íslandsmeistaratitlinum. Jafnt var í hálfleik, 11:11, gestirnir náðu mest fimm marka forystu í seinni hálfleik en Þórsarar létu ekki hugfallast og voru klaufar, eða óheppnir, á lokakaflanum. Þeir fengu þrjár sóknir og einni og hálfri mínútu til þess að jafna en tókst ekki.
Áhorfendur í Íþróttahöllinni voru margir, um 400 skv. leikskýrslu, og stemningin frábær. Leikmenn knattspyrnuliðs Þórs voru fremstir í flokki á þeim vígstöðvum; brugðu sér í hlutverk Mjölnismanna og sungu og trölluðu nánast frá upphafi til enda.
SÍÐASTA AUGNABLIKIÐ
Síðasta sókn leiksins var hraðaupphlaup Þórsara. Hafþór Ingi Halldórsson brunaði fram með boltann en KA-maðurinn í Valsliðinu, Dagur Árni Heimisson, varðist af mikilli skynsemi; náði að stöðva Hafþór í þann mund er leiktíminn rann út, þó ekki þannig að heimamenn fengu víti heldur aukakast þar sem nánast útilokað var að skora. Hinum skotfasta Igor Chiseliov, markahæsti leikmanni Þórs, var falið það erfiða verkefni að freista þess að jafna. Hann virtist íhuga þann möguleika að reyna skot á milli fóta Valsara, miðað við fyrri myndina, en skaut svo yfir vegginn og einnig yfir markið.
_ _ _
Lítið var skorað í fyrri hálfleik vegna sterkra varna og góðrar markvörslu en einnig var um að kenna óðagoti og klaufaskap leikmanna. Valsmenn höfðu frumkvæðið frá upphafi og náðu þriggja marka forskoti, 8:5, þegar fyrri hálfleikur var liðlega hálfnaður en eftir að Þórsarar tóku leikhlé gerðu þeir þrjú mörk í röð og jöfnuðu. Gestirnir komust tveimur mörkum yfir á ný fljótlega en Þórsarar létu ekki hugfallast og jöfnuðu 11:11 áður en fyrri hálfleikur var úti. Var það í raun ótrúlegt miðað við langan markalausan kafla; á milli fimmta og sjötta marks Þórs liðu 12 mínútur.
Valsmenn hófu seinni hálfleikinn í efsta gír og voru komnir fimm mörkum yfir, 20:15, áður en leiktíminn var hálfnaður. Sem fyrr neituðu Þórsarar að gefast upp, þeir söxuðu smám saman á forskotið og munurinn varð nokkrum sinnum eitt mark en þeir náðu aldrei að jafna. Meiri breidd er í leikmannahópi Vals sem skipti líklega sköpum í gær en Þórsarar hafa sýnt í haust að þeir eiga að geta staðist hvaða andstæðingi sem er snúning.
Brynjar Hólm Grétarsson í dauðafæri og Björgvin Páll Gústavsson kom engum vörnum við í þetta skipti.
Mörk Þórs: Igor Chiseliov 7 (1 víti), Brynjar Hólm Grétarsson 5, Hafþór Már Vignisson 5, Oddur Gretarsson 4, Þórður Tandri Ágústsson 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Halldór Kristinn Harðarson 1.
Varin skot: Nikola Radovanovic 15, þar af 2 víti (39,5%) – Patrekur Guðni Þorbergsson 3 (37,5%).
Mörk Vals: Andri Finnsson 5, Þorgils Jón Svölu Baldursson 4, Dagur Árni Heimisson 4 (2 víti), Kristófer Máni Jónasson 4, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 3, Allan Norðberg 3, Gunnar Róbertsson 3, Viktor Sigurðsson 2 (1 víti).
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12, þar af 2 víti (30,8%).
Nikola Radovanovic lék mjög vel gegn Val – varði um 40% þeirra skota sem hann fékk á sig.