Fara í efni
Íþróttir

Hallgrímur framlengir – KA gegn Fram í dag

KA fær Fram í heimsókn í dag í 20. umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Flautað verður til leiks á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið klukkan 17.00.

Þau gleðitíðindi voru tilkynnt í aðdraganda leiksins að Hallgrímur Mar Steingrímsson, besti leikmaður KA um árabil, væri nú samningsbundinn félaginu eitt ár enn – út sumarið 2026. „KA og Grímsi skrifuðu undir tveggja ára samning sumarið 2023 en samningurinn innihélt ákvæði um þriðja árið sem hefur nú verið virkjað,“ segir í tilkynningu á vef KA.

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 20. umferð
    Greifavöllurinn kl. 17
    KA - Fram

KA gerði 3:3 jafntefli við Aftureldingu á útivelli í síðustu umferð og er í 10. sæti með 23 stig að loknum 19 leikjum. KA er tveimur stigum á undan Aftureldingu sem er í 11. sæti og Akurnesingar eru í 12. og neðsta sæti með 16 stig.

Spennan í neðri hluta deildarinnar er gríðarleg. Sex efri liðin halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn að loknum 22 umferðum, sex þau neðri leika einnig innbyrðis og að loknum fimm aukaleikjum falla tvö þau neðstu.

Vestri er í fimmta sæti Bestu deildarinnar með 26 stig, FH er í sjötta sæti með 25 stig og Fram með jafn mörg stig í sjöunda sæti. ÍBV hefur 24 og KR 23, einu meira en KA.

Bæði KA og Fram þurfa nauðsynlega á þremur stigum að halda úr leik dagsins, í baráttunni um að verða í hópi sex efstu þegar þar að kemur. KA vann fyrri viðureignina gegn Fram í lok maí, 2:1, þar sem Ásgeir Sigurgeirsson og Jóan Símun Edmundsson skoruðu.

Leikja- og markahæstur

Hallgrímur Mar Steingrímsson er leikjahæstur í sögu knattspyrnudeildar KA og einnig markahæstur. „Kappinn er uppalinn hjá Völsung[i] á Húsavík en kom átján ára til liðs við KA fyrir sumarið 2009,“ segir á vef félagsins. Þar segir að hann hafi verið algjör lykilmaður í liði KA, og í þeirri uppbyggingu sem hafi átt sér stað síðan; KA fór upp úr næstefstu deild, festi sig í sessi í Bestu deildinni, varð bikarmeistari og hóf að leika í Evrópukeppni á ný.

Leikirnir sem KA á eftir áður en deildinni verður skipt í tvennt:

  • Í dag
    KA - Fram
  • Sunnudag 31. ágúst
    Stjarnan - KA
  • Sunnudag 14. september
    KA - Vestri

Staðan í deildinni