Fara í efni
Íþróttir

Halldór með sögulegasta markið - Toddi með flest

Halldór Áskelsson og Þorvaldur Örlygsson í viðureign Þórs og KA á „gamla, góða“ Sanavellinum – Gunna…
Halldór Áskelsson og Þorvaldur Örlygsson í viðureign Þórs og KA á „gamla, góða“ Sanavellinum – Gunnar Gíslason, sem var landsliðsmaður bæði í knattspyrnu og handknattleik.

Íslendingar mæta Þjóðverjum í undankeppni HM í knattspyrnu í Duisburg í Þýskalandi í kvöld. Það verður 500. landsleikur A-landsliðs karla. Fram kom á Akureyri.net í morgun að Akureyringarnir Birkir Bjarnason og Aron Einar Gunnarsson eru með landsleikjahæstu Íslendingum, og Aron hefur lang oftast allra borið fyrirliðabandið.

Í tilefni dagsins eru hér rifjaðir upp nokkrir punktar um akureyrska landsliðsmenn í gegnum tíðina.

Gógó sá fyrsti

 • Ragnar Sigtryggsson, Gógó, var fyrsti Akureyringurinn sem lék með landsliði Íslands. Það var gegn Belgum, í undankeppni HM, á Laugardalsvelli 4. september 1957. KA-maðurinn Ragnar var þá orðinn 32 ára og var aldursforseti liðsins. Þetta varð eini landsleikur hans. Þrátt fyrir óskabyrjun Íslendinga – Ríkharður Jónsson skoraði eftir aðeins 17 sekúndur – sigruðu Belgar í leiknum, 5:2. Landsleikir Ragnars urðu ekki fleiri.

Sögulegt mark í Moskvu

 • Þórsarinn Halldór Áskelsson skoraði eftirminnilegt mark í 1:1 jafntefli gegn Sovétríkjunum í Moskvu 31. maí 1989. Hann varð þá fyrsti leikmaðurinn til að skora gegn Sovétmönnum í undankeppni HM á heimavelli þeirra í 24 ár. Þeir höfðu spilað 15 leiki í röð í undankeppni HM á heimavelli, síðan 1965, án þess að fá á sig mark en höfðu skorað 40 í þeim leikjum.
 • Með markinu stöðvaði Halldór sigurgöngu Sovétmanna á heimavelli í undankeppni HM því þeir höfðu unnið alla heimaleiki sína frá því í forkeppni HM í Svíþjóð 1958, þegar þeir tóku fyrst þátt!
 • Halldór, sem byrjaði á bekknum en kom inn á þegar 21 mínúta var eftir, á 69. mínútu, jafnaði metin á 86. mín. í þessum sögufræga leik.

Í tveimur landsliðum

 • KA-maðurinn Gunnar Gíslason, sá fjölhæfi íþróttamaður, tók á sínum tíma þátt í 50 landsleikjum og gerði 3 mörk. Gunnar var nánast fastamaður í liðinu í áratug, frá 1982 til 1991.

Kristján Örn Sigurðsson - Sigurður Lárusson - Lárus Orri Sigurðsson 

Feðgar og frændur

 • Þórsarinn Sigurður Lárusson tók þátt í 11 landsleikjum á árunum 1981 til 1983, þegar hann var leikmaður ÍA. Synir hans tveir fetuðu báðir í fótspor föðurins; Lárus Orri klæddist landsliðstreyjunni 42 sinnum og gerði 2 mörk en Kristján Örn á að baki 53 landsleiki. Hann gerði 4 mörk og var fyrirliði í 3 leikjum.
 • Þorvaldur Örlygsson, einn Íslandsmeistara KA 1989, er markahæsti Akureyringurinn með landsliðinu. Toddy, eins og Englendingar kölluðu Þorvald þegar hann lék með Nottingham Forest, Stoke og Oldham, gerði 7 mörk í 41 landsleik, þar af þrennu í 6:0 sigri á Eistlandi í vináttuleik á Akureyrarvelli 1994.
 • Ormarr Örlygsson, eldri bróðir Þorvaldar, tók þátt í 9 landsleikjum.
 • Lárus Orri, Kristján, Þorvaldur og Ormarr eru systrasynir; móðir þeirra fyrrnefndu er Valdís Þorvaldsdóttir en Bryndís systir hennar er móðir Þorvaldar og Ormarrs.
 • Þórsarinn Bjarni Sveinbjörnsson, faðir KA-mannsins Birkis landsleikjahæsta Akureyringsins, tók þátt í einum landsleik á sínum tíma, 1:0 sigri á Færeyjum í vináttuleik á Akranesi 1985.

Þrír í 14:2 tapinu ...

 • Þrír Akureyringar voru í landsliðinu í einum frægasta leik Íslands, 14:2 tapinu fyrir Dönum í vináttuleik á Idrætsparken í Kaupmannahöfn 23. ágúst 1967. Þeir léku þá allir með Íþróttabandalagi Akureyrar; Jón Stefánsson (KA) var í vörninni, Guðni Jónsson (Þór) á miðjunni og Kári Árnason (KA) í framlínunni. Kári kom inn í byrjunarliðið á síðustu stundu í stað Framarans Elmars Geirssonar sem rotaðist í upphitun! Boltanum var sparkað í höfuð hans.
 • Vert er að geta þess að í liðinu voru einnig Jóhannes Atlason, sem átti eftir að þjálfa og leika með ÍBA nokkrum árum seinna, og þjálfa bæði KA og Þór síðar. Þá lék Hermann Gunnarsson með ÍBA og þjálfaði liðið 1970 og Elmar lék með KA um árabil.

Skoraði helminginn!

 • Sagan segir að Valsarinn Hemmi Gunn hafi haft svör á reiðum höndum þegar liðsfélagarnir hafi rætt um það eftir leikinn að framlínumennirnir hefðu getað lagt sig meira fram til að aðstoða í varnarleiknum. Þið getið nú ekki kvartað neitt yfir mér – ég skoraði helming markanna, á Hemmi að hafa sagt! Hann skoraði með skoti frá vítateig á 63. mín. – 10 sekúndum eftir að Íslendingar byrjuðu á miðju eftir níunda mark Dana. Áður hafði Framarinn Helgi Númason skorað – minnkað muninn í 6:1 – á 51. mín.

Þessir Akureyringar hafa leikið með A-landsliðinu:

 • Birkir Bjarnason 92 leikir – 13 mörk
 • Aron Einar Gunnarsson 91 leikur – 2 mörk – fyrirliði í 61 leik
 • Kristján Örn Sigurðsson 53 leikir – 4 mörk – fyrirliði í 3 leikjum
 • Gunnar Gíslason 50 leikir – 3 mörk
 • Lárus Orri Sigurðsson 42 leikir – 2 mörk
 • Þorvaldur Örlygsson 41 leikur – 7 mörk
 • Halldór Ómar Áskelsson 24 leikir – 4 mörk
 • Árni Stefánsson (markmaður) 15 leikir
 • Hlynur Birgisson 12 leikir – 1 mark
 • Kári Árnason 11 leikir – 1 mark
 • Sigurður Lárusson 11 leikir
 • Jón Stefánsson 11 leikir
 • Guðmundur Benediktsson 10 leikir
 • Ormarr Örlygsson 9 leikir
 • Atli Sveinn Þórarinsson 9 leikir
 • Haukur Heiðar Hauksson 7 leikir
 • Þórhallur Hinriksson 5 leikir – 1 mark
 • Magnús Jónatansson 5 leikir
 • Erlingur Kristjánsson 5 leikir – 3 mörk
 • Steingrímur Björnsson 4 leikir – 1 mark
 • Skúli Ágústsson 3 leikir
 • Steingrímur Birgisson 3 leikir
 • Guðni Jónsson 3 leikir
 • Bjarni Jónsson 2 leikir
 • Siguróli Kristjánsson 2 leikir
 • Ívar Bjarklind 1 leikur
 • Jakob Jakobsson 1 leikur
 • Þorvaldur Makan Sigbjörnsson 1 leikur
 • Ragnar Sigtryggsson 1 leikur – fyrsti Akureyringurinn sem valinn var í landsliðið, 1957
 • Bjarni Sveinbjörnsson 1 leikur

Ragnar Sigtryggsson, Gógó, lengst til vinstri fyrir leikinn gegn Belgíu 1957. Þetta var fyrsti landsleikur Akureyrings.