Fara í efni
Íþróttir

Halldór: Margt gott og helvíti sárt að tapa

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Bahrein, varð að sætta sig við tap gegn Argentínu í gær, 24:21, á HM í handbolta eftir að hans menn höfðu verið í vænlegri stöðu. Bahrein tapaði fyrsta leiknum fyrir heimsmeisturum Danmerkur, sem vænta mátti, en fyrir mót gerði Halldór sér vonir um að vinna Argentínu. Síðasti leikurinn í riðlinum er gegn Kongó.

„Ég er að klippa leikinn síðan í gær, og þar er af ýmsu að taka sem hægt væri að tala um,“ sagði Halldór í morgun. Hann er annar tveggja KA-manna við stjórnvölinn hjá liði á HM, hinn er vitaskuld Alfreð Gíslason, sem stýrir Þjóðverjum og var í viðtali hér á Akureyri.net fyrr í dag.

„Þetta var að mörgu leyti ágætur leikur hjá okkur en mínir menn gerðu samt allt of mikið af mistökum,“ sagði Halldór Jóhann við Akureyri.net. Hann hafði áður nefnt að líkamlegt ástand leikmanna liðsins væri ekki eins og hjá bestu liðunum, og það kom þeim í koll í gær. Eftir að Argentínumenn náðu nokkurra marka forystu í fyrri hálfleik náðu drengir Halldórs að jafna og komast yfir; staðan var 20:17 fyrir þá þegar korter var eftir og 21:20 þegar sjö mínútur lifðu leiks – en Argentínumenn gerðu fjögur síðustu mörkin.

„Við spiluðum oft mjög góðan sóknarleik en það sem ég óttaðist mest, og nefndi við þig fyrir mótið, að líkamlegt ástand minna manna væri hreinlega ekki boðlegt á HM, reyndist rétt. Þótt ég hafi látið alla 16 spila gegn Dönum, og aftur í gær, voru bestu mennirnir alveg búnir undir lok leiksins gegn Argentínu. Tankurinn var alveg tómur. Það segir sína sögu að leikmaður sem kom til æfinga á ný í desember eftir krossbandsslit var bestur í gær. Mínir menn voru líka reknir miklu oftar út af Argentínumennir, oftast fyrir klaufabrot sem má rekja til þess að þeir eru ekki í nógu góðu ásigkomulagi.“

Halldór Jóhann segir liðsmenn Bahrein baráttumenn þrátt fyrir allt. „Þeir eru stríðsmenn og alltaf tilbúnir að berjast í leikjum, en það dugar bara ekki allan tímann þegar líkamlegt atgervi er ekki nógu gott. Þeir bestu og mikilvægustu spila í Sádí Arabíu og Furstadæmunum og þar eru gæðin einfaldlega alls ekki nægjanlega mikil. Það hjálpar að sjálfsögðu heldur ekki til að menn voru búnir að vera í útgöngubanni, þá gátum við ekki æft saman og þeir eru ekkert að æfa sjálfir, eins og menn eru til dæmis vanir heima á Íslandi. Þrátt fyrir allt vorum við þó í góðru stöðu til að vinna leikinn og það var helvíti sárt að tapa,“ sagði Halldór Jóhann.