Fara í efni
Íþróttir

„Gríðarlega sterkur liðssigur“

Frábær vörn lagði grunninn að sigri KA/Þórs á Fram í Olísdeild kvenna í handbolta í KA-heimilinu í gær, 27:23. Sigurinn var mjög sanngjarn, enda höfðu stelpurnar okkar forystu allan tímann og voru mest átta mörkum yfir, 21:13 þegar 12 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.

Sigurinn var því mjög öruggur og KA/Þór er nú á toppi deildarinnar með 10 stig eftir sjö leiki. Valur er þar við hlið KA/Þórs, einnig með 10 stig að loknum sjö leikjum, eftir jafntefli við HK síðar í gær. Fram og Stjarnan eru bæði með átta stig eftir sex leiki.

„Þetta var frábær frammistaða hjá stelpunum, og óhætt að segja að það hafi verið varnarleikurinn sem skóp sigurinn. Þvílík frammistaða varnarlega! Við eigum þó inni betri markvörslu sem hefði gert varnarleikinn enn betri,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, sigurreifur við Akureyri.net að leikslokum.

„Við stýrðum leiknum mjög vel; réðum hraðanum, stelpurnar voru mjög skynsamar og agaðar í sókninni. Það var gott flæði í sóknarleiknum, og við fengum mörk úr öllum stöðum og nokkur góð hraðaupphlaupsmörk. Þetta var því gríðarlega sterkur liðssigur,“ sagði Andri. „Eftir að við komumst átta mörkum yfir náðu Framstelpurnar áhlaupi en mínar stelpur voru samt sem áður yfirvegaðar og sigurinn var aldrei í hættu.“

Andri talaði um liðssigur og nefndi einmitt að þær sem sátu á bekknum hafi gefið mikið af sér, ekki síður en hinar. „Það er hrikalega góð stemning í hópnum og mikil orka, sem skilar sér í geggjuðum handbolta.“

Hann segir stelpurnar hafa verið gríðarlega duglegar að æfa í Covid-fríinu. „Þær eru að uppskera eftir þrotlausar æfingar og eiga mikið hrós skilið fyrir aga; þær voru duglegar að hlaupa og á lyftingaæfingum sem Egill [Ármann Kristinsson] styrktarþjálfari stjórnaði. Þær eru því í toppstandi og ferskar.“

Næsti leikur er einnig á heimavelli þegar lið ÍBV kemur norður næsta laugardag. „Það verður geggjað verkefni því ÍBV er með frábært lið,“ sagði Andri Snær.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir gerði 7 mörk í gær, þar af 4 úr vítum, Sólveig Lára Kristjánsdóttir gerði 5, Ásdís Guðmundsdóttir 4/1, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1 og Kristín A. Jóhannsdóttir 1.

Leikmenn KA/Þórs sigri hrósandi eftir glæsilegan sigur í gær. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.