Fara í efni
Íþróttir

Glæsilegur sigur KA annan daginn í röð

KA-stelpurnar unnu annan hörkuleikinn á jafn mörgum dögum. Ljósmynd: BLÍ
KA-stelpurnar unnu annan hörkuleikinn á jafn mörgum dögum. Ljósmynd: BLÍ

Stelpurnar í blakliði KA, sem unnu glæsilegan sigur á nýkrýndum bikarmeisturum HK í gær, lögðu Þróttara í Reykjavík í dag, 3:1.

Þróttarar höfðu forystu í fyrstu hrinu frá upphafi til enda og unnu 25:22. Næsta hrina var lengst af hnífjöfn en KA-menn gáfu í undir lokin og unnu 25:20. Þriðja hrinan var hins vegar afar ójöfn; KA komst í 15:7 og unnu 25:16. KA tók líka forystuna strax í fjórðu hrinu og vann mjög sannfærandi, 25:19.

KA á nú þrjá leiki eftir í deildinni áður en úrslitakeppnin fer af stað. KA-menn er með 25 stig eftir 12 leiki, HK með jafn mörg stig, en aðeins eftir 10 leiki, og Afturelding er efst með 26 stig að loknum 11 leikjum.

KA á eftir að mæta Aftureldingu á heimavelli og Þrótti tvisvar, bæði í Neskaupstað og heima.