Fara í efni
Íþróttir

Glæsilegur ferill - Bryndís á enn þrjú Íslandsmet

Bryndís Rún Hansen með sex gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum í San Marínó árið 2017.
Bryndís Rún Hansen með sex gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum í San Marínó árið 2017.

Bryndís Rún Hansen, besti sundmaður Akureyringa og margfaldur Íslandsmeistari- og methafi í gegnum tíðina, hefur ákveðið að láta gott heita og hætta keppni eins og kemur fram í viðtali við hana hér á Akureyri.net í dag.

Bryndís á enn þrjú Íslandsmet, í 50 metra flugsundi, bæði í 50 metra laug og 25 metra laug, og í 100 m flugsundi í 25m laug. Þá á hún fjögur Íslandsmet í boðsundi með landsliðinu.

Bestu tímar Bryndísar í 50 metra laug

  • 50 m skriðsund 25,92 sekúndur
  • 100 m skriðsund 55,98 sek
  • 200 m skriðsund 2.03,68 mín
  • 50 m flugsund 26,68 sek – Íslandsmet; 16. maí 2016 á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug í London, þar sem Bryndís komst í undanúrslit.
  • 100 m flugsund 1.00,33 mín

Bestu tímar Bryndísar í 25 metra laug

  • 50 m skriðsund 25,29 sek
  • 100 m skriðsund 54,67 sek
  • 200 m skriðsund 1.59,50 mín
  • 50 m flugsund 26,22 sek – Íslandsmet; 8. desember 2016 á heimsmeistaramótinu í 50 m laug í Windsor í Kanada. Bryndís komst í undanúrslit og lenti í 16. sæti.
  • 100 m flugsund 59,95 sek – Íslandsmet; 10. desember 2016 á heimsmeistaramótinu í 50 m laug í Windsor í Kanada.

Ferillinn í stuttu máli

Bryndís var í unglingalandsliði Íslands frá því hún var 13 ára til 18 ára aldurs og náði á þeim tíma lágmörkum í öll unglingaverkefni SSÍ og ÍSÍ. Hún synti í tvígang til úrslita á Evrópumeistaramóti unglinga og setti þar sitt fyrsta Íslandsmet, einungis 15 ára. Þá keppti hún á fyrstu Ólympíuleikum ungmenna sem haldnir voru í Singapore árið 2010 og komst þar í undanúrslit í 50 m flugsundi.

Í byrjun árs 2011 flutti Bryndís til Bergen í Noregi til að leggja frekari áherslu á sundið og þar lauk hún stúdentsprófi. Í Bergen vann hún til fjölda verðlauna og varð margfaldur Noregsmeistari á árunum 2011 til 2013.

Bryndís keppti með landsliði Íslands á Evrópumeistaramótum og Smáþjóðaleikum 2011 til 2013.

Haustið 2013 fluttist hún til Bandaríkjanna þar sem hún stundaði nám í viðskipta- og markaðsfræði við Nova Southeastern University í Flórída í tvö ár, til vors 2015.

Bryndís var í tvígang kosin íþróttamaður vikunnar í Flórídaríki á meðan hún keppti fyrir Nova Southeastern og var einnig útnefnd nýliði ársins í ríkinu. Hún keppt í þremur greinum á meistaramóti 2. deildar háskóla og setti deildarmet í 50 jarda skriðsundi – 22,53 sek.

Haustið 2015 ákvað Bryndís að taka sér eins árs hlé frá skóla til að einbeita sér enn frekar að sundinu og stefndi á Ólympíuleikana í Ríó 2016. Keppti þá fyrir Óðin á Akureyri á ný og varð m.a. fimmfaldur Íslandsmeistari í 50 metra laug. Þá var hún í landsliðinu á Smáþjóðaleikunum þar sem hún keppti í fimm greinum og bætti tvö Íslandsmet, og á HM í Rússlandi þar sem Bryndís keppti í fjórum greinum og bætti tvö Íslandsmet.

Bryndís var fyrsta íslenska konan til að synda 50 m flugsund undir 27 sekúndum og önnur í röðinni til að synda 100 m skriðsund undir 56 sekúndum. Þá varð hún fyrst íslenskra kvenna til að synda 100 m flugsund á innan við einni mínútu í 25 m laug.

Á Íslandsmótinu í 50 m laug hlaut hún fimm gullverðlaun og setti eitt Íslandsmet. Hún synti undir þremur B lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Río og var eini sundmaðurinn sem kom fast á hæla Ólympíufara SSÍ, en það dugði ekki til og Ólympíudraumurinn rættist ekki.

Bryndís hélt til náms á ný haustið 2016, í University of Hawaii, sem keppir í 1. deild NCAA, íþróttasamtaka bandarískra háskóla.

„Með sundliðinu á Hawaii 2016 til 2017 stimplaði ég mig vel inn á nýjum stað með skóla- og mótsmetum auk þess að vinna mér keppnisrétt á NCAA,“ segir Bryndís og vísar til úrslitakeppni háskólameistaramótsins.

Haustið 2016 átti hún sæti í boðsundssveit Íslands í 4x100 m fjórsundi bæði á EM í 50 m laug og HM í 25 m laug. „Boðsundssveitin var gríðarlega sterk og varð meðal annars í 6. sæti á EM 50. Ég átti þátt í þremur Íslandsmetum sem boðsundssveit SSÍ setti á árinu,“ segir Bryndís.

Árið 2017 varð Bryndís fjórfaldur Íslandsmeistari í 50 metra laug og vann sex gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum í San Marino - fagnaði sigri í öllum greinum sem hún tók þátt í. Á heimsmeistaramótinu í Ungverjalandi keppti Bryndís í þremur greinum og var nálægt sínum besta árangri í öllum.

Hún vann sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug, sem fram fór í Kaupmannahöfn í desember 2017, en varð að draga sig úr keppni vegna veikinda.

Bryndís var kjörin íþróttamaður Akureyrar árin 2009, 2010 og 2011 og íþróttakona Akureyrar 2016, eftir að farið var að kjósa besta íþróttmanninn af hvoru kyni.