Fara í efni
Íþróttir

Jón Ingi bætti þrjú gömul Akureyrarmet

Blíðskaparveður hefur verið á Akureyri síðustu daga og nutu keppendur á B. Jensen vormóti Óðins þess eins og aðrir.

Veðrið lék við keppendur og starfsmenn á B. Jensen vormóti Óðins sem haldið var í Sundlaug Akureyrar á laugardaginn. Keppendur voru 62 frá Óðni og einn frá Sundfélaginu Rán á Dalvík. Í tilkynningu frá Óðni segir að sigurvegari mótsins, að öðrum ólöstuðum, hafi verið Jón Ingi Einarsson sem sló þrjú gömul Akureyrarmet í aldursflokki 13-14 ára.

Yngstu keppendurnir eru fæddir 2016 og 2017, flestir að taka þátt í keppni í fyrsta sinn. „Það er skemmst frá því að segja að þau stóðu sig frábærlega vel þrátt fyrir að hafa velflest aldrei stungið sér af startpalli, þar sem enginn slíkur er í Glerársundlaug, þar sem grasrótarstarf Óðins fer fram,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Jón Ingi Einarsson sem sló þrjú gömul Akureyrarmet í aldursflokki 13-14 ára. 

Akureyrarmet Jóns Inga eru þessi:

  • Það fyrsta setti hann í 50 metra baksund – sýnti 30,80 sekúndum. Gamla metið var skráð á Svavar Þór Guðmundsson, 31.30 sek. frá árinu 1985. Met Svavars Þórs hafði sem sagt staðið í 40 ár!
  • Annað met Jóns Inga var í 50 metra flugsundi. Þá synti hann á 28,74 sek. en gamla metið frá 1990 átti Ómar Þorsteinn Árnason og það var 29,90 sek.
  • Þriðja og síðasta metið setti Jón Ingi í 100 metra fjórsundi. Hann synti vegalengdina á 1:07,55 mín. Fyrra met átti Birkir Leó Brynjarsson, það var ekki eins gamalt og hin tvö, eða frá árinu 2011 – 1:08,01 mín.

Sundlið Óðins er ungt að árum og svo mun verða á meðan ekki rætist úr aðstöðumálum félagsins, segir í tilkynningunni. „Nú síðast hefur Alicia Júlía Kempisty stigahæsta sundkona Óðins á síðasta ári ákveðið að flytja til Hafnarfjarðar til að æfa við bestu aðstæður. Þar fer efnileg sundkona en það vel skiljanlegt, þegar kona ætlar sér meira en að vera efnileg!“

Yfirþjálfari Óðins er sem stendur Kristjana Pálsdóttir Margrétardóttir. Á síðasta aðalfundi var hún kjörin formaður Óðins og tekur við því embætti 1. júlí. Gaman er að geta þess að móðir Kristjönu, Margrét Ingibjörg Ríkarðsdóttir, var formaður félagsins á árunum 1998-2001 og eru þær fyrstu mæðgurnar sem gegnt hafa formennsku í Óðni. Í haust snýr Ragnheiður Runólfsdóttir aftur og tekur á ný við sem yfirþjálfari Óðins.

Næsta stóra verkefni Óðins er Íslandsmeistaramót aldursflokka sem fram fer í Akureyrarlaug dagana 20.-22. júní.