Fara í efni
Íþróttir

Galdurinn er að vera yfir í lok leiksins!

Anna Þyrí Haraldsdóttir stóð í ströngu á línunni gegn ÍBV. Vítið í lokin var einmitt dæmt þegar brot…
Anna Þyrí Haraldsdóttir stóð í ströngu á línunni gegn ÍBV. Vítið í lokin var einmitt dæmt þegar brotið var á henni í dauðafæri. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Stelpurnar í KA/Þór héldu sér á toppi Olís deildarinnar í handbolta með ótrúlegum sigri á ÍBV, 24:23, í KA-heimilinu í dag. Gestirnir voru lengstum yfir en með þeirri miklu seiglu, sem einkennt hefur Stelpurnar okkar upp á síðkastið, náðu þær að tryggja sér bæði stigin sem í boði voru. Lið KA/Þórs er því komið með 12 stig eftir átta leiki. Valur mætir Haukum síðar í dag og Fram sækir HK heim á morgun og með sigri geta Reykjavíkurfélögin náð norðankonum að stigum.

Heimaliðið hafði forystu í byrjun, 1:0 og 2:1 en fljótlega hófst eltingaleikurinn. Eyjastúlkurnar voru mest þremur mörkum yfir í fyrri hálfleiknum, 7:4 og 11:8 þegar flautað var til hálfleiks. KA/Þór fékk tækifæri til að jafna 9:9 en tókst ekki og markvörðurinn, Marta Wawrzynkowska skoraði yfir endilangan völlinn. Matea markvörður KA/Þórs var þó utanvallar því Andri Snær Stefánsson, þjálfari norðankvenna, hafði sjö í sókn gegn sex manna vörn. Næsta sókn fór einnig forgörðum og aftur skoruðu Eyjamenn í tómt markið yfir endilangan völlinn. Óhætt er að segja að stelpurnar hafi þarna farið illa að ráði sínu.

Seinni hálfleikurinn var lengi vel keimlíkur þeim fyrri. Gestirnir höfðu forystu og komust fjórum mörkum yfir, 17:13, þegar tæpar 20 mínútur voru eftir en þá fóru heimamenn heldur betur í gang, gerðu fjögur mörk í röð og jöfnuðu metin. Allt var í járnum eftir það, ÍBV þó með frumkvæðið allt þar til rúmar þrjár mínútur voru eftir þegar ruðningur var dæmdur á Birnu Berg Haraldsdóttur - sem var reyndar stórfurðulegur dómur. Eyjamenn voru einum færri og enginn í markinu, Aldís Ásta var fljót að átta sig, sendi fram á Rakel Söru Elvarsdóttur, sem hafði tekið á sprett og hún skoraði í tómt markið á meðan markvörðurinn nálgaðist á harðahlaupum af bekknum. KA/Þór skyndilega komið einu marki yfir, 23:22 og nákvæmlega þrjár mínútur voru eftir.

Örvhenta stórskyttan Birna Berg Haraldsdóttir braust laglega í gegnum vörn heimamanna og jafnaði þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. KA/Þór tókst ekki að skora úr næst síðustu sókn liðsins, Eyjamönnum ekki heldur, og það var svo þegar tíu sekúndur voru eftir þegar Anna Þyrí Halldórsdóttir fékk boltann á línunni, eftir sendingu Aldísar Ástu Heimisdóttur og víti var réttilega dæmt. Ásdís Guðmundsdóttir fékk það verkefni að skora og gerði það vitaskuld af miklu öryggi, eins og hennar var von og vísa.

ÍBV tók leikhlé strax eftir markið en lokasókn liðsins rann út í sandinn og liðsmenn KA/Þór fögnuðu sætum sigri.

Mörk KA/Þórs: Ásdís Guðmundsdóttir 7 (3 víti), Rakel Sara Elvarsdóttir 5, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 5, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2 og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1. Matea Lonac varði 9 skot.

Ásdís Guðmundsdóttir skælbrosandi í leiknum í dag; hún tryggði KA/Þór bæði stigin með marki úr víti tíu sekúndum fyrir leikslok. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.