Fullkominni helgi lauk með sigri KA/Þórs

Fullkominni akureyrskri handboltahelgi lauk í gær þegar KA/Þór sigraði Stjörnuna 24:22 í KA-heimilinu. Þriðji sigurinn í jafn mörgum var staðreynd: nýliðar Þórs í efstu deild karla unnu ÍR á föstudagskvöld, KA sigraði Selfoss á laugardag og stelpurnar okkar héldu upp á endurkomu í efstu deild Íslandsmótsins með því að næla sér í tvö stig.
KA/Þór vann næst efstu deild Íslandsmótsins með miklum yfirburðum síðasta vetur, án þess að tapa leik, en eins og sennilega má kalla hefð var gert ráð fyrir slæmu gengi nýliðanna þegar kom að samkvæmisleiknum sem spá fyrirliða og þjálfara er að hausti. KA/Þór var spáð næst neðsta sæti, nánast með sama stigafjölda og Selfoss sem spáð var neðsta sætinu. Stjarnan lenti hins vegar um miðja deild í spánni en í gær kom í ljós – eins og allir vita auðvitað – að íþróttaleikir vinnast ekki á pappírnum.
Jónatan Þór Magnússon þjálfari KA/Þórs leggur línurnar í einu leikhléinu gær.
Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi, gestirnir voru mest einu marki yfir en munurinn mestur fjórum mörkum KA/Þór í hag, þegar hálfleikurinn var allur; staðan þá 13:9.
KA/Þór fór mikinn fyrri hluti seinna hálfleiks og var komið sjö mörkum yfir þegar aðeins sjö mínútur voru liðnar. Staðan þá 17:10 og munurinn var enn sá sami um hálfleikinn miðjan. KA/Þór hafði þá gert 21 mark en Stjarnan 14. Þá snerust vindar hins vegar svo um munaði, heimaliðinu voru mjög mislagðar hendur á meðan gestirnir léku við hvern sinn fingur og á næstu 12 mínútum gerði Stjarnan sjö mörk en KA/Þór hins vegar aðeins eitt.
Kristín A. Jóhannsdóttir tekin föstum tökum í hraðaupphlaupi. Í þetta skipti tókst að stöðva hana en Kristín gerði þrjú mörk úr fjórum skotum í leiknum. Til vinstri er Rakel Sara Elvarsdóttir.
Þegar þrjár mínútur voru eftir var munurinn því kominn niður í eitt mark, staðan þá 22:21 fyrir KA/Þór, en Tinna Valgerður Gísladóttir gerði næsta mark fyrir gestgjafana úr víti, Stjarnan tapaði boltanum í næstu sókn og Anna Þyrí gerði 24. markið af línu eftir sendingu Susanne Denis Pettersen og þar með voru úrslitin ráðin. Þá var að vísu ein og hálf mínúta eftir, allt getur gerst í handbolta eins og margoft hefur sýnt sig en engin hætta var á ferðum að þessu sinni. Gestirnir bættu aðeins einu marki við og til að kynda undir enn meiri fögnuð en ella varði Matea Lonac vítakast Anítu Bjarkar Valgeirsdóttur þegar leiktíminn var úti.
Tinna Valgerður Gísladóttir og Sólveig Lára Kristjánsdóttir (15) tilbúnar í slaginn í vörninni. Matea Lonac markvörður í baksýn. Tinna Valgerður var markahæst ásamt Önnu Þyrí Halldórsdóttur.
Lið KA/Þórs lék vel lungann úr leiknum en „slæmi kaflinn“ – alræmt og þekkt fyrirbrigði í handboltanum – í seinni hálfleik var allt of langur þótt hann hafi ekki komið að sök í þetta skipti. Eðlilegt er að lið séu ekki fullmótuð strax í upphafi móts eða sóknarleikurinn orðinn eins vel smurður og hann verður síðar. Sigurinn er í raun það eina sem skiptir máli því afar dýrmætt er, ekki síst fyrir nýliða í deildinni, að byrja á sigri.
Mörk KA/Þórs: Anna Þyrí Halldórsdóttir 6, Tinna Valgerður Gísladóttir 6 (4 víti), Susanne Denise Pettersen 5, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Lydía Gunnþórsdóttir 1, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 10 (2 víti) – 31,3%.
Mörk Stjörnunnar: Brynja Katrín Benediktsdóttir 5, Natasja Hammer 3, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 3, Aníta Björk Valgeirsdóttir 3 (2 víti), Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 2, Hanna Guðrún Hauksdóttir 2, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 1, Rakel Dórothea Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 7 – 28%, Margrét Einarsdóttir 6 – 50%.
Leikmenn KA/Þórs fagna sigrinum á Stjörnunni. Lengst til vinstri takast þjálfarar liðanna í hendur, Patrekur Jóhannesson og Jónatan Þór Magnússon.