Fara í efni
Íþróttir

Frostharka á Fróni og sundæfingum aflýst

Frostharka á Fróni og sundæfingum aflýst

Öllum útiæfingum hjá Sundfélaginu Óðni í Sundlaug Akureyrar var aflýst í gær vegna frosthörku. „Þetta kemur of oft fyrir. Við aflýstum líka útiæfingum einn dag í síðustu viku,“ sagði Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, formaður Óðins, við Akureyri.net.

Opinber mælir sýndi 11 gráðu frost í gærmorgun, og það er of mikið til að halda úti æfingum, að mati Óðinsmanna. Afrekshópur Óðins átti að æfa í bítið en ekkert varð af því og þeir 68 sem áttu að æfa síðar um daginn – afreks-, úrvals- og framtíðarhópar – fóru heldur ekki í laugina.

Forráðamenn Óðins eru orðnir langþreyttur á því að hafa ekki yfirbyggða sundlaug til æfinga. „Við erum í samkeppni við sundfélögin fyrir sunnan sem æfa í innilaugum en við þurfum að búa við þetta. Við erum þriðja stærsta sundfélag landsins en búum við allt aðrar aðstæður en hin félögin,“ sagði formaður Óðins.

Guðrún Rósa segir ekki gott að æfa í miklu frosti, þá aukist til að mynda hætta á meiðslum. Nefndi sérstaklega axlarmeiðsli. Hún bendir líka á, sem fólk geri sér hugsanlega ekki grein fyrir, að ekki sé nóg að komast ofan í laugina! „Gufan vegna kuldans er stundum svo mikil að ekki er hægt að kenna sundtækni, hvað þá að æfa stungur eða snúninga við bakkann, vegna þess að þjálfarinn sér ekki sundmanninn nógu vel! Þá er mikill tími notaður til að æfa þolsund. Í fyrravetur, sem var mjög leiðinlegur, var ekki hægt að æfa stungur í marga mánuði vegna þess að ísing var svo mikil að það var hættulegt.“

Þá segir hún ekki skemmtilegt að þurfa að bjóða þjálfurum að standa kappklæddir á bakkanum á æfingum öllum veðrum, til dæmis í miklum kulda.

„Akureyrarbær forgangsraðar íþróttamannvirkjum og í nýlegri skýrslu er yfirbyggð sundlaug í sjöunda sæti. Óðinn hefur óskað eftir því í mörg ár – og mun halda áfram að berjast fyrir því – að fá yfirbyggða æfingaaðstöðu. Við erum íþróttafélag sem vill gefa öllum tækifæri til að æfa sem vilja, við þurfum aldrei að auglýsa og alltaf er fullt. Sundlaugarstærðin takmarkar algjörlega vaxtarmöguleika okkar. En við gefumst ekki upp; við höldum áfram að berjast fyrir sundið en það er alveg ljóst að fara verður í ákveðna vinnu ef við ætlum að halda áfram með sund hér í bænum. Við höfum verið að missa afrekskrakka annað, þar sem þau geta æft við miklu betri aðstæður.“