Fara í efni
Íþróttir

Framsókn svarar spurningum lesenda

Framsókn svara nú spurningum lesenda Akureyri.net í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Öll framboðin fengu sendar spurningar og svör framsóknarmanna við þeim flestum bárust í gær.

SPURT ER – Hver er afstaða til spítalabrekkunnar með tilliti til byggingar stefnu Akureyrarbæjar og umsagnar Minjastofnunar um málið?

SVAR – Við setjum okkur ekki upp á móti uppbyggingu í Tónatröð en við viljum vanda til verka enda skipar Innbærinn mikilvægan sess í hjörtum bæjarbúa. Uppbygging getur fært aukið líf í eitt fallegasta hverfi bæjarins.

SPURT ER – Hver er afstaða til Glerárlaugar?

SVAR – Við viljum draga til baka skerðingu á opnunartíma og opna hana aftur almenningi þar sem fjárhagsstaða bæjarsjóðs býður upp á það. Huga þarf að hlutverki Glerárlaugar þegar kemur að því að treysta heilsuvernd fyrir ólíka hópa, s.s. börn og aldraða.

SPURT ER – Hver er afstaða til reksturs og uppbyggingar í Hlíðarfjalli með tilliti til veltu þjónustuaðila í bænum fyrstu fjóra mánuði ársins sem eingöngu er tilkomin vegna skíðaaðstöðu í Hlíðarfjalli?

SVAR – Það er klárt mál að það þarf að hefja einhverja uppbyggingu í Hlíðarfjalli en hvort bærinn standi einn að því eða inn í það komi fjárfestar og fjármagn frá ríkinu líka á allt eftir að skoða. Við viljum kortleggja hvað Akureyrarbær getur gert til að gera bæinn eftirsóknarverðari áfangastað í nánu samstarfi við innlenda og erlenda ferðaþjónustuaðila og þar kemur Hlíðarfjall sterkt inn ásamt Glerárdal.

SPURT ER – Hver er afstaða til gjaldfrjáls strætós?

SVAR – Við sjáum ekki fyrir okkur breytingu á því fyrirkomulagi

SPURT ER – Hver er afstaða til hálkuvarna stofnæða að vetri?

SVAR – Halda áfram að veita góða vetrarþjónustu. Aðferðir og tæki til hálkuvarna hafa verið að þróast mikið og því mikilvægt að fylgjast vel með og finna þær lausnir sem eru hagkvæmar en skapa sem mest öryggi og draga sem minnst úr umhverfisgæðum okkar.

SPURT ER – Hver er afstaða til rykhreinsunar gatna allt árið?

SVAR – Það er stígandi í þessari þjónustu og búið að fjárfesta í búnaði svo vonandi verður hægt að sinna þessari þjónustu í meira mæli allt árið.

SPURT ER – Hvaða skoðun hafa framboðin á nýja miðbæjarskipulaginu þar sem á að byggja á flestum bílastæðum miðbæjarins? Kemur til greina að draga úr byggingamagni? Er stefnt að því að byggt verði í „gamaldags“ stíl, svipað og við Austurbrú, sem væri betur í samræmi við td. Innbæinn og og byggðina þar norðan við, frekar en stóra steinkumbalda?

SVAR – Það kemur alveg til greina að minnka það eitthvað en skilyrðið er náttúrulega að byggt verði bílastæðishús eða kjallarar sem almenningur getur nýtt. Varðandi byggingastíl þá fer það nokkuð eftir staðsetningu. Í Innbænum þarf að huga að ,,gamaldags stíls” en það á ekki endilega við í öllum miðbænum. Það þarf að vanda skipulagið og hönnunina vel.

SPURT ER – Styðja framboðin áframhaldi saltaustur á götur Akureyrar?

SVAR – Við skiljum vel áhyggjur fólks af þessu og viljum takmarka eins og hægt er notkun salts á götur bæjarins.

SPURT ER – Hver er stefnan í fegrun bæjarins?

SVAR – Að bærinn okkar sé snyrtilegur er keppikefli fyrir okkur öll og við þurfum klárlega að fara í sameiginlegt stórátak þar. Það er hluti af okkar framlagi til að gera Akureyri að ákjósanlegum áningastað og auka vellíðan bæjarbúa. Við viljum skoða hvaða verkfæri við höfum í höndunum til að komast eitthvað áfram í þessum málum.

SPURT ER – Er ætlunin að standa við samþykkt um að lausaganga katta verði ekki heimil frá ársbyrjun 2025?

SVAR – Það er stefna núverandi bæjarstjórnar að banna lausagöngu katta á næturnar frá og með næstu áramótum. Það er okkar mat að það sé þess virði að prufa það fyrirkomulag.

SPURT ER – Er staðfastur vilji til þess að tryggja almenningi áfram svipaðan aðgang að Glerárlaug og verið hefur á liðnum árum?

SVAR –

SPURT ER – Er vilji til þess að draga til baka, a.m.k. að einhverju leyti, nýorðnar breytingar á bílastæðafyrirkomulagi í miðbæ Akureyrar, t.d. láta gamla klukkufyrirkomulagið gilda fyrir þá sem það vilja?

SVAR – Það þarf í öllu falli að skoða þetta fyrirkomulag betur til að koma betur til móts við eldri borgara. Okkar skoðun er sú að bærinn ætti að bíða með gjaldtöku meðan heilsugæslan er í miðbænum.

SPURT ER – Hvort verður á undan í byggingu, viðbygging Ráðhúss eða staður og uppbygging samgöngumiðstöðvar fyrir SVA, BSO, landsbyggðarstrætó, sem er illa staðsett í Strandgötu, og rútur?

(Smá sagnfræði: Það má fara 25 ár aftur í timann með umræðuna um samgöngumiðstöð, en ekkert er orðið að veruleika. Fyrir aldamót voru uppi hugmyndir að kaupa húsnæði það sem varð grunnurinn að byggingum Átaks. Var ætlunin að flytja þangað starfsemi Umferðarmiðsstöðvar, upplýsingarmiðstöðvar ferðamanna og BSO).

SVAR – Spurning hvort það þurfi að taka dýrmæta lóð í miðbænum undir starfsemi sem þessa. Við sjáum ekki endilega þörf á því að strætó stoppi til lengri tíma eða hafi kaffistofu í miðbænum. Til að mynda eru stærstu vinnustaðir bæjarins ekki í miðbænum. Við erum því ekki með byggingu á samgöngumiðstöð í okkar stefnuskrá.

SPURT ER – Krossanesborgir er náttúruperla okkar Akureyringa. Það þarf að laga göngustíga og setja bekki að mínu mati. Hver er skoðun framboðanna á því?

SVAR – Alveg sammála.

SPURT ER – Ég hjóla mikið, og mér finnst vanta hjólageymslu eða svæði sem er hægt geyma hjólið meðan maður er að erindast í miðbænum. Hvað segja framboðin um það?

SVAR – Mjög áhugaverð spurning, og spurning hvort það væri hægt að koma henni fyrir í einhverjum þeim bílakjöllurum sem ætlunin er að byggja. Nú er fólk farið að nota hjól sem samgöngutæki í meira mæli en áður og því sjálfsagt að huga að því eins og bílastæðum.

SPURT ER – Enginn flokkanna er með einhverja stefnu sem þeir ætla að leiða okkur gagnvart, engin framtíðarsýn. Hvert á að stefna með bæinn? Þetta er allt hugmyndir gagnvart einhverjum málaflokkum. Það er rekstur. Það sem pólitíkin þarf að bjóða upp á er einhver hugmynd, einhver framtíðarsýn.

Því spyr ég: Hvað verður Akureyri eftir 25 ár og hvernig ætlið þið að leiða okkur þangað? Þetta er í rauninni bara beisikk pólitísk spurning því ef menn vita ekki svarið þá eiga þeir ekki að vera í pólitík.

SVAR – Við erum mjög sammála þessu og höfum talað fyrir því að við verðum að horfa til lengri tíma. Okkur eru allir vegir færir og við þurfum að hefja víðtækt samtal um hvernig við ætlum að grípa þessi tækifæri sem blasa við okkur. Við viljum koma á samtali milli sveitarfélagsins, atvinnurekanda, fjárfesta, frumkvöðla, mennta- og menningarstofnana og ferðaþjónustuaðila um hvernig við getum styrk okkar svæði. Við þurfum að huga að innviðauppbyggingu hjá okkur til að koma til móts við ferðaþjónustuna og svara kalli um fjölbreytta atvinnu.

SPURT ER – Þegar maður talar við þá sem vita um stöðu bæjarsjóðs þá verða þeir alltaf grafalvarlegir, tala um að staðan sé grafalvarleg og hún verði stóra málið næsta kjörtímabil. En út á við eru þessi sömu aðilar að beina kastljósinu frá þessari umræðu.

Mín spurning til allra framboð er því þessi:

Hver er skuldastaða bæjarsjóðs og hvað finnst þeim um hana? Er hún í eðlilegu samhengi við rekstur, er hún ekkert til að hafa áhyggjur af eða er hún eitthvað sem taka þarf sérstaklega á og þá hvernig?

SVAR – Akureyri er ekki mjög skuldsett sveitarfélag. Skuldahlutfallið er 86% en má samkvæmt sveitarstjórnarlögum ekki vera hærra en 150%. Við höfum því ekki miklar áhyggjur af henni en klárlega þarf að huga vel að fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Við erum því ekki með dýr kosningaloforð en viljum frekar einbeita okkur að þeim verkefnum sem liggja fyrir og klára þau. Það vill nefnilega stundum henda okkur að fara af stað með verkefni sem eru ekki fjármögnuð nema að hluta og þá endum við bara með stefnu eða aðgerðaáætlum sem týnist ofan í skúffu. Varðandi velferðamálin þá viljum við halda áfram með þau verkefni sem byrjað er á og forgangsraða fjármunum í það. Þar erum við til dæmis að tala um innleiðingu á farsældarlögum barna. Við þurfum að klára að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og við teljum brýnt að skoða betur málefni fatlaðra og þá einkum barna. Það liggur líka fyrir að fara í vinnu í málefnum aldraðra sem tekur á samþættingu þjónustu, húsnæðismálum og samgöngum.

SPURT ER – Hver er stefna framboðanna í skólamálum? (Væri gaman að fá annað en hið einfalda svar að þar sé unnið frábært starf og stefnt að því að svo verði áfram!)

SVAR – Á þessu kjörtímabili var samþykkt metnaðarfull menntastefna sem er byggð upp á þremur lykilþáttum. Fyrsti þátturinn tekur á innra mati þar sem skólarnir meta sína stöðu en á næstu tveimur árum verður farið í næstu þætti en skólarnir fá ráðgjöf og fræðslu á vegum sveitarfélagsins til að fara í þessa vinnu. Það verður áhugavert að heyra í skólasamfélaginu og hvernig því finnst vinnan ganga.

Við fögnum því að í nýjum kjarasamningum kennara sé meira rými til að ráða sínum vinnutíma sjálf. Við leggjum ríka áherslu á að halda áfram með verkefnið Brúum bilið og flýta aðgerðum til að koma 12 mánaða börnum fyrr inn og fara í aðgerðir til að fjölga aftur dagforeldrum.

Við setjum í forgang að vanda til verka við innleiðingu á farsældarlögum barna og trúum að það verði um leið stuðningur inn í skólakerfið þegar við förum að sjá ávinning af þeirri vinnu.