Fara í efni
Íþróttir

Frábær keppni á Scandinavian Cup

Norðmaðurinn Jan Thomas Jensson í 15 km göngunni í dag, þar sem hann sigraði eftir mjög harða keppni. Ljósmynd: Ármann Hinrik.

Norðmenn sköruðu fram úr í dag þegar keppt var í 15 km skíðagöngu karla og kvenna með frjálsri aðferð, á seinni degi alþjóðlega skíðamótsins Scandinavian Cup í Hlíðarfjalli. Aðstæður voru nokkuð góðar eftir að vindur datt niður og sólin fór að skína, að sögn mótshaldara. „Hitastig var um frostmark og náðu brautir að verða harðar og þéttar og keppnin því hröð og jöfn,“ segir í tilkynningu frá þeim.

Norðmenn voru gríðarlega öflugir á mótinu um helgina. Sem dæmi þá voru þeir í 11 efstu sætunum í karlaflokki, en í kvennaflokki voru úrslitin dreifðari á milli þjóða. Margt af öflugasta skíðagöngufólki Norðurlanda var mætt til keppni í dag. Ræst var með hópræsingu í báðum flokkum.

Í kvennaflokki var hörð barátta á milli Marte Skaanes og Karoline Simpson-Larsen, sem báðar eru frá Noregi. Karoline hafði forystu alla þrjá hringina og þær stöllur hristu allar aðrar af sér. Í síðustu brekkunni, þegar komið var inn á marksvæðið, var það hins vegar Marte sem átti næga orku eftir til þess að komast fram úr Karoline og sigraði nokkuð örugglega.

Í karlaflokki var gríðarlega hörð barátta og var stór hópur sem fylgdist að alla hringina þrjá. Úrslit réðust ekki fyrr en komið var á marksvæðið og aðeins um 500 metrar eftir. Sigurvegari dagsins var Jan Thomas Jensson, annar var Magne Haga og í þriðja sæti Ivar Tildheim Andersen. Þeir eru allir Norðmenn.

Kristrún Guðnadóttir í Skíðafélaginu Ulli var fremst Íslenskra kvenna í 21. sæti, en í karlaflokki var það hinn öflugi Snorri Einarsson sem var í 22. sæti.

Mótið í Hlíðarfjalli var það síðasta í Scandinavian Cup mótaröðinni og voru veitt verðlaun fyrir samanlagðan árangur vetrarins í dagslok. Það var hin gríðarlega öfluga Marte Skaanes Noregi sem bar sigur úr býtum samanlagðri keppni og öðlast með því þátttökurétt í heimsbikarmótaröðinni næsta vetur. Önnur í mótaröðinni varð Silja Oeyre Slind og í þriðja sæti Karoline Simpson-Larsen, einnig báðar frá Noregi.

Í samanlagðri stigakeppni Scandinavian Cup mótaraðarinnar í karlaflokki var það Mattis Stenshagen frá Noregi sem vann nokkuð örugglega. Annar var landi hans Magne Haga og Ola Jeorgen Bruvoll, enn einn Norðmaðurinn, varð þriðji. Mattis Stenshagen fær að launum að taka þátt í heimsbikarmótum fyrir hönd Noregs á næsta keppnisári.

Þetta er í fyrsta skipti sem keppni af þessari stærðargráðu er haldin á Íslandi og létu keppendur vel af aðstæðum og mótahaldi. Auk áhorfenda í Hlíðarfjalli fylgdust um 2000 manns með keppninni í gegnum streymi.

UM SCANDINAVIAN CUP

Scandinavian Cup er mótaröð á vegum Alþjóða Skíðasambandsins (FIS) sem haldið er á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum á hverju ári. Í vetur fóru fram mót í Beitostölen í Noregi, Falun í Svíþjóð og Otepää í Eistlandi áður en kom að lokamótinu á Akureyri. Mótið er gríðarlega sterkt og hingað mæta skíðagöngumenn sem m.a. hafa verið að taka þátt í heimsbikarmótum í ár. „Þetta er í fyrsta skipti sem Scandinavian Cup er haldið á Íslandi og má því sannarlega segja að þetta sé allra sterkasta skíðagöngumót sem haldið hefur verið hér á landi.“

Smellið hér til að lesa um fyrri keppnisdaginn.

Fleiri myndir á morgun

Karoline Simpson-Larsen, númer 2, sigraði í dag en Marte Skaanes, í gula vestinu, sigraði í mótaröðinni í vetur. Ljósmynd: Ármann Hinrik.

Karlarnir á fullri ferð í brautinni í dag. Sá í gula vestinu, Mattis Stenshagen, varð stigahæstur á mótaröðinni í vetur, en næsti maður á undan honum á myndinni er Jan Thomas Jensson, sem sigraði í móti dagsins. Ljósmynd: Ármann Hinrik.