Fara í efni
Íþróttir

Flokkur fólksins svarar lesendum

Flokkur fólksins er fyrstur til að svara spurningum lesenda Akureyri.net í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Hér má sjá þær spurningar sem þegar hafa verið sendar framboðunum og svör Flokks fólksins. Fleiri spurningar hafa borist og verða sendar framboðunum.

1 – Hver er afstaða til spítalabrekkunnar með tilliti til byggingarstefnu Akureyrarbæjar og umsagnar Minjastofnunar um málið?

SVAR – Framboðið styður ekki hugmyndir um að byggja háhýsi á þessum stað. 

2 – Hver er afstaða til Glerárlaugar?

SVAR – Hindra verður með öllum ráðum fyrirhugaða lokun laugarinnar. Hér er um stórt lýðheilsumál að ræða og raunar réttlætismál þegar haft er í huga hverjir helst sækja laugina og hina góðu aðsókn að henni.

3 – Hver er afstaða til reksturs og uppbyggingar í Hlíðarfjalli með tilliti til veltu þjónustuaðila í bænum fyrstu fjóra mánuði ársins sem eingöngu er tilkomin vegna skíðaaðstöðu í Hlíðarfjalli?

SVAR – Við erum Akureyringar og elskum Hlíðarfjall og viljum því vel, erum ávalt tilbúin að ræða málin, fræðast og læra.

4 – Hver er afstaða til gjaldfrjáls strætós?

SVAR – Gríðarlega gott mál

5 – Hver er afstaða til hálkuvarna stofnæða að vetri?

SVAR – Hálkuvarnir vissulega þarfar en látum saltið vera. Alls ekkert salt á götur bæjarins.

6 – Hver ef afstaða til rykhreinsunar gatna allt árið?

SVAR – Rykhreinsun er nauðsynleg

7 –  Hvaða skoðun hafa framboðin á nýja miðbæjarskipulaginu þar sem á að byggja á flestum bílastæðum miðbæjarins? Kemur til greina að draga úr byggingamagni? Er stefnt að því að byggt verði í „gamaldags“ stíl, svipað og við Austurbrú, sem væri betur í samræmi við td. Innbæinn og byggðina þar norðan við, frekar en stóra steinkumbalda?

SVAR – Er ekki viss um að við föllumst á að Austurbrú sé í gamaldags stíl, að ekki sé nú talað um þann byggingarklasa sem er að rísa syðst við götuna. Erum mótfallin háhýsum sem rísa eiga á BSO-reitnum suður að Kaupvangsstræti. Höfnum alfarið fyrirhugaðri mjókkun Glerárgötu.

8 –  Styðja framboðin áframhaldi saltaustur á götur Akureyrar?

SVAR – Nei

9 –  Hver er stefnan í fegrun bæjarins?

  • Allt of margar stórar aspir er víða inni í bænum. Má ekki fella/ grisja þessi skrímsli? Efst í Víðilundi eru aspir svo hávaxnar að íbúar á fimmtu hæð njóta ekki útsýnis.
  • Kynnið ykkur góð áhrif af góðu/grænu útsýni og rannsóknir sem Páll Jakob Líndal, sem er umhverfissálfræðingur hjá HÍ, hefur gert og sannar góð áhrif á heilsu fólks.

SVAR – Við erum hlynnt trjágróðri. Vissulega má athuga með grisjun aspa en þá að ráðleggingum trjáfræðinga – t.d. Jóhanns Thorarensen sem kann vel á tré – og í samráði við nágranna þeirra aspa sem í hlut eiga.

Við leggjum þunga áherslu á að verja græn svæði og höfnum því alfarið að byggðar verði á þriðja hundrað íbúðir (eða þaðan af fleiri) á íþróttasvæðinu við Hólabraut. Þar á að verða útivistarsvæði bæjarbúa jafnt sumar sem vetur. Tjaldsvæðið neðan Byggðavegar á að láta óáreitt. Og skiptir engu hvort þar verður áfram leyft að tjalda eður ei. Þétting byggðar hefur fyrir löngu gengið út í öfgar. Rétt eins og Jakob Líndal bendir á eru græn svæði til fróunar sálinni og gera gott mannlíf betra.

10 –  Er staðfastur vilji til þess að tryggja almenningi áfram svipaðan aðgang að Glerárlaug og verið hefur á liðnum árum?

SVAR –

11 –  Er vilji til þess að draga til baka, a.m.k. að einhverju leyti, nýorðnar breytingar á bílastæðafyrirkomulagi í miðbæ Akureyrar, t.d. láta gamla klukkufyrirkomulagið gilda fyrir þá sem það vilja?

SVAR – Við erum hlynnt gamla klukkufyrirkomulaginu og skiljum reyndar ekki hvað rak núverandi stjórnarflokka bæjarins til þessara breytinga. Ekki síst í því ljósi að núverandi bæjarfulltrúar hyggjast senn byggja á helstu bílastæðum bæjarins en vilja þó í skamman tíma heimta af þeim stöðugjald.

12 – Hvort verður á undan í byggingu, viðbygging Ráðhúss eða staður og uppbygging samgöngumiðstöðvar fyrir SVA, BSO, landsbyggðarstrætó, sem er illa staðsett í Strandgötu, og rútur?

  • (Smá sagnfræði: Það má fara 25 ár aftur í timann með umræðuna um samgöngumiðstöð, en ekkert er orðið að veruleika. Fyrir aldamót voru uppi hugmyndir að kaupa húsnæði það sem varð grunnurinn að byggingum Átaks. Var ætlunin að flytja þangað starfsemi Umferðarmiðsstöðvar, upplýsingarmiðstöðvar ferðamanna og BSO).

SVAR – Landsbyggðarstrætóinn er beinlínis á hættulegum stað við Strandgötu. Til skamms tíma ætti að færa hann inn á planið við Hof. Hvað varðar spurninguna þá sýnist okkur í fljótu bragði liggja meira á samgöngumiðstöðinni.

13 – Krossanesborgir eru náttúruperla okkar Akureyringa. Það þarf að laga göngustíga og setja bekki að mínu mati. Hver er skoðun framboðanna á því?

SVAR – Krossanesborgir eru magnaður staður. Eftir að hafa gengið þar þvers og kruss viljum við vara við of miklum framkvæmdum þar. Má ef til vill huga að stígunum en ekki um of og alls ekki malbika þá. Verum náttúruvæn í náttúrunni. En etv mætti fjölga stígunum og já, bekkir væru til bóta.

14 – Ég hjóla mikið, og mér finnst vanta hjólageymslu eða svæði sem er hægt geyma hjólið meðan maður er að erindast í miðbænum. Hvað segja framboðin um það?

SVAR – Við myndum í bili láta grindurnar duga sem þar eru. Eru hentugar til að læsa við hjólum

15 – Hver er stefna framboðanna í skólamálum? (Væri gaman að fá annað en hið einfalda svar að þar sé unnið frábært starf og stefnt að því að svo verði áfram!)

SVAR – Umbætur í leikskólamálum og skólamálum eru nauðsynlegar. Í leikskólamálum þarf sérstaklega að huga að aðstöðu og aðbúnaði fyrir börnin og starfsfólkið og fara ekki fram úr sér með því að taka 12 mánaða gömul börn inná leikskóla þegar leikskólinn hefur ekki aðstöðu né aðbúnað til þess, einnig leysa vandann með styttingu vinnuviku og huga þarf að húsnæðum skólanna, og tryggja að allir skólar séu með nægilega stórt húsnæði ásamt þeim aðbúnaði sem þarf. Eins með grunnskólana þarf að tryggja aðbúnað og aðstöðu. Snemmtæk íhlutun, samtal, samvinna, skapandi skil, gagnrýnin hugsun finnst okkur lykilatriði inn í skólakerfinu.

16 – Hvernig væri að byggja einn mjög flottan fyrsta flokks Akureyrarvöll, fjölnota „stadium“ til framtíðar fyrir alla Akureyringa með öllu sem þarf, á sama stað og gamli er?

  • Frekar en að rembast í einhverjum þokkalegum aðstöðum fyrir 2 eða hugsanlega fleiri lið, þá að hugsa stórt og til framtíðar fyrir alla og með skynsemi í huga.
  • Öll efstu fótboltaliðin á Akureyri noti hann fyrir keppnisleiki, hvort sem liðin eru 1-2-3-4 eða hvað mörg.
  • Völlurinn væri fyrsta flokks og landsliðin okkar gætu spilað landsleiki þar.
  • Okkar Akureyrarlið gætu spilað Evrópuleiki og allt slíkt sem gæti þurft.
  • Stór bílakjallara undir öllu og yfirbyggð stúka, mögulega hægt að loka alveg yfir.

SVAR – Þetta er fyrirtaks spurning. Hvaða vit er í því fyrir 17-18 þúsund sálir að reisa tvo fullkomna knattspyrnuvelli með öllu því sem slík mannvirki kalla á? Við spyrjum því, er of seint að vinda ofan af þessari öfugþróun? Sem leiðir ójákvæmilega til þess að allt of miklu fé verður varið til steinsteypu og viðhalds á steinsteypu í stað hins eiginlega íþróttastarfs.

17 – Ég sá skrifað að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka álögur á bæjarbúa og spyr: Væri ekki best að falla frá nýlögðum álögum á þá er leggja bifreiðum á bifreiðastæðum bæjarins? Þó ekki væri til annars en að forða okkur frá að greiða þjónustugjald til tölvufyrirtækja í Reykjavík (parka) í Svíþjóð (easy park.) Las að þjónustugjöld væru 86 og 95 krónur til þessa aðila í hvert skipti sem einhver þarf að leggja í gjaldstæði. Þetta eru óþarfar álögur. Best að hafa stæðin frí eins og verið hefur í 17 ár ef ég man rétt.

SVAR – Hljómar illa að greiða fjarstöddum gróðapungum fyrir að leggja bílum okkar í miðbæ Akureyrar.

18 – Er ætlunin að standa við samþykkt um að lausaganga katta verði ekki heimil frá ársbyrjun 2025?
Bæjarstjórn hafði þegar samþykkt að breyta fyrri ákvörðun. En þar sem Flokkur fólksins á ekki fulltrúa í bæjarstjórn birtist hér svar framboðsins:

SVAR – Flokkur fólksins fagnar ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar um að falla frá áformum um að lausaganga katta í bænum verði alfarið bönnuð. Þrátt fyrir það er kattamálið ekki mikið forgangsmál hjá okkur. Við fórum í framboð til þess að tryggja öllum Akureyringum aðgang að grunnþjónustu, óháð efnahag. Við viljum að engin börn líði skort vegna fátæktar. Við teljum að fólk eigi ekki að þurfa að hokra í vanlíðan vegna örorku og að efri árin eiga að vera gæðaár, en hvorki fátæktargildra né kvíðaefni. Þetta eru þau mál sem við brennum fyrir og setjum okkar orku í. Fólkið fyrst – svo allt hitt!