Fara í efni
Íþróttir

Fjallahlauparar á ferðinni

Af stað! 28 kílómetrar framundan hjá þessum, sem lögðu í hann í Kjarnaskógi klukkan 10 í morgun. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Fjallahlaupið Súlur Vertical fer fram í dag á Akureyri og nágrenni. Mestu kempurnar, þeir sem hlaupa 55 kílómetra, héldu af stað klukkan 7 í morgun úr Kjarnaskógi, ræst var í 28 km hlaupinu klukkan 10 og kl. 11 héldu þeir af stað sem hlaupa 18 km.

Reikna má með fyrstu mönnum í mark upp úr klukkan 12 og hér með er skorað á fólk að gera sér ferð í göngugötuna og taka vel á móti hlaupurunum. Alls taka á fimmta hundrað manna þátt í hlaupinu í ár; 566 skráðu sig en um 100 manns sóttu ekki keppnisgögn og tóku því ekki þátt. 

Akureyri.net fylgist að sjálfsögðu með gangi mála í dag og segir frá þessu skemmtilega hlaupi og öðrum viðburðum á fjölskylduhátíðinni Einni með öllu, í máli og myndum.

Tveir fyrstu í 55 km hlaupinu  í Kjarnaskógi - hálfnaðir með keppnina - í þann mund er ræst var í 28 km hlaupinu.

Hlaupið af stað klukkan 10 í morgun - 28 km framundan.