Fara í efni
Íþróttir

Erfiðasta verkefni KA-manna hingað til

Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA með boltann í fyrri leiknum gegn Dundalk í síðustu umferð Sambandsdeildarinnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA mætir Club Brugge í Belgíu í dag í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu. Þetta er fyrri viðureign liðanna í þriðju umferð forkeppni  deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Hægt er að fullyrða að rimman við Club Brugge er erfiðasta verkefni KA-manna hingað til – reyndar það lang erfiðasta. Belgarnir slógu út AGF frá Danmörku í síðustu umferð; sigraði 3:0 á heimavelli en tapaði seinni leiknum 1:0 í Danmörku.

KA hefur til þessa slegið út Connah's Quay Nomads frá Wales og írska liðið Dundalk í Sambandsdeildinni. Belgíska félagið er miklu sterkara en  bæði þau lið, enda komst Club Brugge í 16 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð þar sem liðið féll úr leik eftir einvígi við Benfica frá Portúgal.

Síðari leikur KA og Club Brugge verður á Laugardalsvelli eftir viku.

Tveimur umferðum er lokið í belgísku deildarkeppninni; Club Brugge byrjaði á því að gera 1:1 jafntefli á heimavelli við Mechelen en sigraði síðan KVC Westerlo 1:0 á útivelli. Þekktasti leikmaður belgíska liðsins er líklega markvörðurinn, Simon Mignolet, sem í nokkur ár stóð í marki enska félagsins Liverpool.