Fara í efni
Íþróttir

Ekki kurteisishjal Arnars, segir Sveinn

Sveinn Arnarsson knattspyrnudómari. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sveinn Arnarsson, knattspyrnudómari á Akureyri, hafnar því að hafa komið í KA-heimilið til að strá salti í sárin daginn eftir leik KA og KR í Bestu deildinni á dögunum, eins og Arnar Grétarsson þjálfari KA ýjaði að í Þungavigtinni, þætti á Vísi í morgun.

Sveinn var fjórði dómari á leiknum og segir að um morguninn hafi framkvæmdastjóri KA sent sér afsökunarbeiðni vegna þess sem gerðist undir lok leiksins kvöldið áður og þeir hafi mælt sér mót í KA-heimilinu.

Arnar Grétarsson þjálfari KA fékk rautt spjald undir lok leiksins og gagnrýndi Svein harðlega. Arnari staðfesti í Þungavigtinni að hann hafi síðan vísað Sveini út úr KA-heimilinu daginn eftir og fannst einkennilegt að Sveinn skyldi koma í húsið þann dag. 

„Ég held ég hafi ekki notað einhver ljót orð en auðvitað var mér enn heitt í hamsi,“ sagði Arnar í þættinum. Sveinn er ekki sammála þeirri frásögn.

Yfirlýsing Sveins

„Að gefnu tilefni

Ég í sannleika sagt hélt að ég þyrfti ekki að skrifa þennan texta en vegna þeirra ummæla sem hafa fallið sé ég mig knúinn til að útskýra ákveðna hluti.

Morgun eftir leik í 15. umferð bestu deildar karla fékk ég skilaboð frá Framkvæmdastjóra KA þar sem hann biður mig afsökunar á því sem gerðist á síðustu andartökum leiksins og eftir leik. Ég tók þeirri afsökunarbeiðni og spurði hvort ég gæti hitt á hann. Hann sagði við mig að líta endilega við.

Ég á barn, tíu ára dreng, sem æfir knattspyrnu með KA. Í hádeginu, þriðja ágúst, daginn eftir umræddan knattspyrnuleik ég með barn mitt á knattspyrnuæfingu. Aðstoðaði ég hann í anddyri félagsheimilis liðsins við að klæða sig í knattspyrnuskó og hnýta skóþveng sinn þar sem virkilega kalt var í veðri og barnið loppið á fingrum.

Ég náði mér því næst í kaffibolla og þar næst gáði ég hvort framkvæmdastjórinn væri við. Á þeim tíma kom þjálfari KA að mér. Þau orð sem þar voru látin falla í minn garð voru alls ekki neitt kurteisishjal. Hegðun sem þessi, bæði á knattspyrnuvelli og sér í lagi daginn eftir leik, er ekki íslenskri knattspyrnu til framdráttar.

Það er því alrangt að ég hafi á nokkurn hátt verið að strá salti í sár nokkurs manns. Ég einfaldlega tók við afsökunarbeiðni og mælti mér mót við frkv.stjóra áður en ég ætlaði að horfa á barn mitt æfa knattspyrnu. Menn verða að taka ábyrgð á eigin hegðum með öðrum hætti en að gera það eitthvað tortryggilegt að ég sé í KA-heimilinu daginn eftir leik, þegar ég kom þangað annars vegar með son minn á æfingu og hins vegar til að hitta á frkv. stjóra félagsins, sem getur staðfest það.

Við erum komin á mjög skringilegar slóðir ef umræða um íslenska knattspyrnu hverfist um 38 ára fjölskylduföður á Akureyri. Íslensk knattspyrna er í sókn og fagmennskan verður æ meiri með hverju árinu. Látum hér staðar numið og beinum sjónum okkar fram veginn, íslenskri knattspyrnu til heila.

Læt ég þetta vera mín lokaorð um málið.“