Fara í efni
Íþróttir

Ekkert annað en sigur kemur til greina

Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, í einum leikja sumarsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA mætir Breiðabliki í afar þýðingarmiklum leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu í dag á Akureyrarvelli (Greifavellinum). Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, segir ekkert annað en sigur koma til greina, enda barist um dýrmæt stig í toppbaráttunni.

Staða þeirra liða sem geta keppt um Íslandsmeistaratitilinn og Evrópusæti er þessi – leikir og stig

  • Valur            18  36
  • Víkingur     18   36
  • Breiðablik  17   35
  • KA                17   30
  • KR                17   29
  • FH                17   25

Liðin spila 22 leiki í deildinni. KA á því eftir fimm leiki.

„Hjá okkur kemur ekkert annað til greina en að vinna leikinn. Ef við töpuðum stimplum við okkur aðeins út úr toppbaráttunni,“ sagði Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, við Akureyri.net.

Liðin áttust við í Kópavogi um helgina, þar sem Breiðablik sigraði 2:0. Þau mætast með svo stuttu millibili þar sem leiknum, sem fer loks fram í dag, var frestað fyrr í sumar vegna þátttöku Breiðabliks í Evrópkeppninni.

KA-menn hefðu átt að fá víti í leiknum um helgina, þegar staðan var 1:0, en dómarinn sá ekki atvikið nægilega vel. „Vítið hefði mögulega breytt leiknum en eftir seinna markið slaknaði á okkur öllum og við náðum ekki að rífa okkur aftur í gang. En það er gott að stutt er í næsta leik!“ segir Ásgeir.

„Við vitum alveg við hverju má búast af því verið erum nýbúnir að spila við þá, en þetta er annar völlur og leikurinn verður öðru vísi,“ segir fyrirliðinn. Blikarnir spila á rennisléttu gervigrasi í Kópavoginum en heimavöllur KA er kunnur af því að vera ekki sérlega sléttur. „Bæði lið reyna að spila góðan fótbolta, það var skemmtilegt að spila í Kópavogi og hefur örugglega verið gaman að horfa á leikinn. Okkar völlur er ekki alveg jafn sléttur og ekki eins auðvelt að spila hratt. En við ættum að vera vanari honum.“

Sigri KA-menn í dag má enn telja þá í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. „Það er það eina sem við sjáum fyrir okkur. Sigur í leiknum gefur okkur aftur vonina um að geta keppt um þann stóra.“

Allir leikirnir sem KA á eftir eru mikilvægir, segir fyrirliðinn. Eftir viðureign dagsins á KA eftir einn útileik, gegn Val, en þrjá leiki á heimavelli, gegn ÍA, Fylki og FH – í síðustu umferðinni.

Ásgeir segist, aðspurður, ekki að öllu leyti sáttur við sumarið. „Ég verð sáttur ef við vinnum titilinn! Ég er ekki orðinn sáttur nema með það að við eigum ennþá séns á að vinna deildina. Ég held að liðið hafi sýnt að það eigi heima í þeirri baráttu, spilamennskan hefur oft verið góð og við höfum líka verið að vinna leiki án þess að spila eins vel og við getum, sem við hefðum ekki gert í fyrra. Það er styrkleikamerki.“

Tveir leik­menn Breiðabliks taka út leik­bann í dag; Vikt­or Örn Mar­geirs­son og Al­ex­and­er Helga Sig­urðsson. Allir leikmenn KA eru klárir í slaginn, nema hvað miðvörðurinn Dusan Brkovic tekur út leikbann.

Leikurinn hefst klukkan 18.00.