Fara í efni
Íþróttir

Einar Árni Gíslason bætti sig verulega

Skíðagöngumennirnir úr SKA sem búa og æfa í Lillehammer, Einar Árni Gíslason til vinstri og á hægri myndinni ásamt Ævari Frey Valbjörnssyni. Aðsendar myndir.
Akureyringurinn Einar Árni Gíslason bætti fyrri árangur sinn verulega á sterku skíðagöngumóti sem fram fór í Olos í Finnlandi um liðna helgi. Einar Árni býr í Lillehammer ásamt öðrum fulltrúa úr Skíðafélagi Akureyrar, Ævari Frey Valbjörnssyni, en þeir hafa báðir gengið til liðs við skíðaklúbbinn Moelven IL og æfa með Team Kraftriket Hedmark Sjusjöen. 
 
Einar Árni keppti á sínu fyrsta móti í vetur og náði miklum bætingum. Keppt var í 10 km göngu með hefðbundinni aðferð á laugardag og kom Einar Árni í mark í 70. sæti af 144 keppendum. Hann skíðaði brautina á 29:08,5 mínútum og var 2:14,1 mínútu á eftir sigurvegara göngunnar. Hann hlaut 86,56 FIS-punkta, sem er mikil bæting því hans besta skíðagöngukeppni var áður upp á 149,17 FIS-stig. Á sunnudag varð hann í 75. sæti af 149 keppendum í skíðagöngu með frjálsri aðferð og hlaut 149,17 FIS-stig. Einar Árni fer með skíðagöngulandsliðinu til Gällivare í Svíþjóð þar sem keppt verður um næstu helgi.