Fara í efni
Íþróttir

Dýrmætur seiglusigur KA-manna í Eyjum

Patrekur Stefánsson, til vinstri, gerði sigurmarkið á ögurstundu, og Jóhann Geir Sævarsson var markahæstur KA-manna í Eyjum. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn gerðu góða ferð til Vestmannaeyja og nældu sér í tvö stig með eins marks sigri á ÍBV í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. Patrekur Stefánsson gerði sigurmarkið, 29:28, þegar sjö sekúndur voru eftir. KA er þar með komið með níu stig að loknum átta leikjum. Fjögur lið eru nú með níu stig; ÍBV, KA, Fram og Stjarnan, sem burstaði Val að Hlíðarenda í kvöld.

Leikurinn í Eyjum var jafn og spennandi. KA-menn voru yfir nánast allan fyrri hálfleikinn, þó aldrei meira en tveimur mörkum, en Kári Kristján Kristjánsson kom heimamönnum yfir, 16:15, með ævintýralegu marki beint úr aukakasti þegar tvær sekúndur voru eftir af hálfleiknum.

Sama spennan hélst í síðari hálfleik. Jafnt var nánast á öllum tölum, en Eyjamenn komust tveimum mörkum yfir eftir tæpar 10 mínútur, 20:18, KA jafnaði 22:22 en aftur komust heimamenn tveimur mörkum yfir, 24:22. Allt var í járnum en KA-menn komust loks yfir á ný þegar þrjár og hálf mín. var eftir, þegar Jóhann Geir Sævarsson, sem var markahæstur KA-manna í kvöld, skoraði eftir hraðaupphlaup í kjölfar þess að ÍBV missti boltann klaufalega.

Aftur var jafnt 27:27 þegar KA fór í næst síðustu sóknina og Áki Egilsnes skoraði með glæsilegu skoti utan af velli, 28:27, þegar 52 sekúndur voru eftir. Theodór Sigurbjörnsson jafnaði fyrir ÍBV úr hægra horninu þegar 23 sekúndur voru eftir en Patrekur kláraði svo dæmið hinum megin; komst framhjá varnarmanni og skoraði með góðu skoti, en var reyndar stálheppinn að fá ekki dæmdan á sig ruðning. Eyjamenn voru brjálaðir og lái þeim hver sem vill, en KA-menn kipptu sér ekki upp við það og fögnuðu sætum sigri innilega. 

Mörk KA: Jóhann Geir Sævarsson 6 (1 víti), Árni Bragi Eyjólfsson 6, Áki Egilsnes 5, Jón Heiðar Sigurðsson 4, Patrekur Stefánsson 4, Einar Birgir Stefánsson 2, Allan Norðberg 1 og Daði Jónsson 1.

Markvarslan: Nicholas Satchwell 8 (1 víti), Svavar Ingi Sigmundsson 1.