Fara í efni
Íþróttir

Brynjar semur við Lecce til þriggja ára

Brynjar Ingi Bjarnason er á leið í atvinnumennsku á Ítalíu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Brynjar Ingi Bjarnason er á leið í atvinnumennsku á Ítalíu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Brynjar Ingi Bjarnason, miðvörðurinn ungi í knattspyrnuliði KA, hefur skrifað undir samning til þriggja ára við ítalska félagið Lecce skv. heimildum Akureyri.net. Félögin hafa einnig náð samkomulagi og næsta víst er að tilkynnt verði um félagaskiptin í dag.

Lecce var með fyrstu félögum sem sýndu Brynjari Inga áhuga, um tíma var þó jafnvel talið líklegra að hann færi annað því Akureyri.net veit að KA samþykkti kauptilboð frá öðru félagi, en það virðist hafa verið með fleiri öngla í sjónum; altjent fékk Brynjar sjálfur aldrei tilboð um samning þaðan.

Brynjar Ingi er 21 árs, verður ekki 22 ára fyrr en 6. desember. Samningur hans við Lecce er til þriggja ára sem fyrr segir, en með möguleika á framlengingu um tvö ár að þeim tíma liðnum.

Borgin Lecce er á suður Ítalíu. Liðið lék í vetur í næst efstu deild, endaði í 4. sæti í vor og verður því áfram í deildinni næsta keppnistímabil.

Smellið hér til að lesa nýlegt viðtal Akureyri.net við Brynjar Inga.

Nánar síðar í dag