Fara í efni
Íþróttir

Brann í Noregi hefur áhuga á Einari Frey

Einar Freyr Halldórsson sló í gegn með Þór í sumar, aðeins 16 ára gamall. Mynd: Ármann Hinrik

Einar Freyr Halldórsson, knattspyrnumaðurinn stórefnilegi hjá Þór, er á leið til norska félagsins Brann þar sem hann mun æfa í nokkra daga.

Einar Freyr sló í gegn með Þór í sumar; tók þátt í 16 leikjum í Lengjudeildinni og gerði tvö stórglæsileg mörk. Einar var einn lykilmanna liðsins, aðeins 16 ára, og hefði án efa leikið meira hefði hann ekki glímt við meiðsli nær allan júnímánuð og tekið þátt í æfingamóti með landsliði 19 ára og yngri í Slóveníu í þessum mánuði.

Freyr Alexandersson, þjálfari Brann, hefur áhuga á að fá miðjumanninn unga til norska liðsins. Samningur liggur þó ekki enn á borðinu, fyrsta skrefið er að Einar fer til Bergen ásamt Sigurði Heiðari Höskuldssyni þjálfara Þórs og æfir með norska liðinu í nokkra daga. Brann er í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar þegar 21 umferð af 30 er lokið.

Einar, sem varð 17 ára í síðustu viku, tók þátt í sex leikjum með Þór í Lengjudeildinni í fyrra, þá aðeins 15 ára.