Fara í efni
Íþróttir

Börn og fjölskyldan í fyrirrúmi

Þann 14. maí göngum við til kosninga og veljum okkur fólk til að fara með málefni bæjarins okkar, Akureyri. Málefni barna og fjölskyldna eru mér hugleikin og langar mig að minnast á nokkur atriði þar af lútandi.

Margt hefur verið gert hér í bænum okkar sem að við getum verið ánægð með en það er aldrei þannig að við getum ekki gert betur. Mörg góð úrrræði eru í boði til að styðja við bakið á fjölskyldum og vil ég nefna nokkur.

Barnavernd en hlutverk hennar er að styðja við og aðstoða fjölskylduna. Það þarf að sjá til þess að sú þjónusta verði áfram byggð á faglegum forsendum og komi til móts við þarfir barna og fjölskyldur þeirra.

Askjan er úrræði þar sem er veitt fræðsla og ráðgjöf til foreldra, veittur er sérstakur stuðningur við uppeldi barnanna og fer sú fræðsla fram á heimilum þeirra. Þetta úrræði hefur gefist vel og þannig viljum við standa vörð um það, börnunum til heilla.

Stuðningsfjölskyldur er úrræði sem boðið er upp á til að auka lífsgæði barna. Hlutverk stuðningsfjölskyldna er síbreytilegt, það getur til dæmis verið til þess að auka félagsleg tengsl og auka fjölbreytni í hversdeginum. Auka þarf sýnileika sem og möguleika stuðningsfjölskyldna, þar er hægt að gera betur.

Mikil þörf er fyrir Fjölskylduheimili hér á Akureyri þar sem hægt væri að bregðast við margþættum áskorunum sem börn og fjölskyldur standa frammi fyrir. Snemmtæk íhlutun er það sem gildir í þessum málum sem og í svo mörgum öðrum. Mjög mikilvægt er að slíkt heimili væri skipað fagfólki því hlutverk heimilisins væri líka að sinna bráðavistun fyrir börn. Það þarf ekki að fjölyrða um það hver kosturinn er að hafa slíka þjónustu í heimabyggð og þurfa ekki að flytja börn á milli landshluta þegar vistunar er þörf. Mín ósk er sú að þar sem að börnin eru það mikilvægasta og dýrmætasta sem við eigum að Þá beri okkur skylda til að vernda þau og gera allt sem að við getum vil að styðja við þau.

Öll börn eiga að geta sinnt tómstundum/íþróttum óháð efnahag foreldra. Þó svo að frístundastyrkur sé greiddur einu sinni á ári dugar það takmarkað. Eins þarf að sjá til þess að styrkirnir nýtist öllum börnum. Framboð tómstunda á að taka mið af þörfum allra barna. Hugsanlega þarf að huga að fleiri tósmstundum en þeirra sem kallast hefðbundnar. Jafnvel gæti bærinn haft milligöngu um slíka samninga við þá sem búa yfir færni og þekkingu sem ekki rúmast í þeim hefðbundnu tómstundum sem standa til boða. Við eigum að vanda okkur og sjá til þess að ekkert barn verði skilið eftir. Eins þarf að athuga hvort eigi að tekjutengja styrkina eða greiða hærri styrki til þeirra sem búa við lakari fjárráð þar sem að fátækt er vaxandi vandi hér á Akureyri líkt og annarsstaðar á landinu.

Tryggja þarf að leik- og grunnskólabörnum efnalítilla foreldra séu tryggðar skólamáltíðir. Og við þurfum virkilega að fara að stíga skrefið í að bjóða gjaldfrjálsar máltíðir í skólum bæjarins. Væri fyrsta skrefið að lækka kostnaðinn verulega og síðan að bjóða þær gjaldfrjálsar innan 3 ára. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þessi máltíð skiptir mikli máli fyrir börnin.

Sigrún Elva Briem skipar 4. sæti á lista Miðflokksins fyrirbæjarstjórnarkosningarnar