Fara í efni
Íþróttir

Boltinn rúllar af stað: KA gegn Leikni

KA-menn fagna marki Andra Fannars Stefánssonar í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins gegn Þór á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Besta deildin, efsta deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, hófst í vikunni og í kvöld er komið að stundinni sem KA-menn hafa lengi beðið eftir. Flautað verður til fyrsta leiks KA á Íslandsmótinu, þegar Leiknismenn úr Reykjavík koma í heimsókn. Leikur KA og Leiknis hefst klukkan 18.00 á Dalvíkurvelli, þar sem nokkrir fyrstu leikir Akureyrarliðsins fara fram.

KA-mönnum hefur ekki verið spáð sérlega góðu gengi í deildinni. „Við stefnum að sjálfsögðu að því að lenda í efri hluta deildarinnar. Okkur langar að keppa um eitthvað og það yrðu auðvitað mikil vonbrigði ef spár rættust og við yrðum í 7. sæti. Þetta er bara spá og það eina sem við getum gert er að svara þessu sinni á vellinum,“ segir Arnar Grétarsson, þjálfari KA, í samtali við Akureyri.net.

Að lokinni hefðbundinni deildarkeppni verður deildinni skipt upp í fyrsta skipti; efstu sex liðin keppa um Íslandsmeistaratitilinn en þau sex neðri keppast um að halda sér í deildinni.

Góð blanda

Listinn yfir meidda KA-menn er langur um þessar mundir, eins og fjallað er um í annarri grein, og spáin byggist væntanlega að einhverju leyti á þeirri staðreynd. „Við verðum að átta okkur á að við förum ekki í toppstandi inn í mótið; ég get ekki sagt eins og Óli Jó, þjálfari FH, að undirbúningurinn hafi verið frábær. Það gefur augaleið að það er betra að geta spilað á sínu sterkasta liðið í nokkrum síðustu leikjunum fyrir mót, eins og hann gat; það er best að vera klár með sitt sterkasta lið, en við vitum að KA liðið styrkist þegar á líður og menn koma úr meiðslum.“

Arnar telur KA-liðið góða blöndu af reyndum leikmönnum og öðrum yngri og margt sé jákvætt þrátt fyrir meiðslin. „Það skiptir miklu máli að mínir menn verði aggresívir í fyrstu leikjunum og nái í stig því við vitum að hópurinn þéttist þegar á líður.“

Margir efnilegir

„Ég veit svo sem ekki á hvað menn horfa aðallega í þessari spá. Menn nefndu til dæmis að ÍA hefði fengið góða leikmenn, sem er vissulega rétt, en þeir misstu líka helling. Ég myndi telja að ef lið halda flestum leikmönnum, eins og við, ætti að vera hægt að byggja ofan á það.“

Arnar nefndi nokkra unga leikmenn sem mikið býr í.

„Tvíburarnir frá Dalvík, Þorri og Nökkvi, eiga mikið inni, Sveinn Margir er mjög efnilegur, náði sér ekki vel á strik í fyrra en var góður sumarið áður, Daníel Hafsteinsson er mjög flottur strákur, sem á líka mikið inni og sama má segja um Bjarna Aðalsteinsson.“

Svo nefnir hann Sebastian Brebels. „Það eru ekki margir sem þekkja Brebels en hann er frábær leikmaður. Hann var vissulega mikið meiddur í fyrra og byrjar mótið meiddur núna sem er ekki gott.“

Aðstaðan annað áhyggjuefni

„Það er vissulega áhyggjuefni hve hópurinn er veikur fyrir, hve margir hafa verið meiddir og maður þarf að passa upp á strákana.

Hitt áhygggjuefnið er æfingaaðstaðan sem er mjög slæm. Vissulega er vinna byrjuð á KA-svæðinu en enginn veit hve langan tíma hún tekur. Eru það þrjár vikur? Fjórar? Hvar eigum við að æfa á meðan? Í Boganum? Á Dalvík og keyra 40 kílómetra hvora leið? Staðan er ekki góð en við verðum að búa við þetta í bili. Þegar nýja gervigrasið kemur verður bylting hjá okkur; aðstaðan hefur verið hræðileg en ljósi punkturin er að hún mun gjörbreytast í sumar. Þá förum við að spila hér heima á KA-svæðinu, ég er viss um að stemningin verður frábær og vonandi dregur líka úr meiðslum þegar við fáum betri völl til að æfa á. Strákarnir vilja frekar æfa inni í Boganum en á gervigrasinu á KA-svæðinu.“

Óljóst er hvenær KA-menn geta spilað fyrsta heimaleikinn á eigin svæði, Arnar vonar að það verði fyrr en síðar en segir þó að betra að vandað verði til verksins þótt völlurinn verði tilbúinn örlítið síðar en ella; það sé betra til framtíðar.“

Hlakka til!

Fyrsti heimaleikurinn verður í dag, sem fyrr segir. Leikur KA og Leiknis hefst klukkan 18.00 á Dalvíkurvelli.

„Ég hef séð nokkra leiki með Leiknismönnum undanfarið og þeir hafa verið að gera flotta hluti. Liðið er vel skipulagt og leikmenn eru aggressívir. Opnunarleikir í Íslandsmótinu eru alltaf erfiðir, alveg sama á móti hverjum maður spilar og alltaf einhver óvænt úrslit í fyrstu umferðunum; Leiknir var til dæmis mjög nærri því að vinna Breiðablik í fyrra en gerði jafntefli,“ segir Arnar.

„Í byrjun móts eru leikmenn eru oft fjörugir eins beljurnar þegar þeim er hleypt út á vorin! Ég á því von á erfiðum leik. Leiknismenn spila leikkerfið 3 – 4 – 3 og ég er viss um að þeir munu pressa okkur mjög framarlega; mínir menn verða að vera duglegir og í toppstandi; það er enginn léttur leikur í deildinni sem gerir hana skemmtilega,“ segir Arnar og bætir við að endingu: „Aðstæður verða góðar á Dalvík; einn metri á sekúndur og 10 stiga hiti – og ég er farinn að hlakka mikið til!“

Stuðningsmenn KA á Dalvíkurvelli í fyrrasumar. Þeir ferðast þangað á nokkra leiki í ár. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson