Fara í efni
Íþróttir

Birkir Bjarnason til Brescia á Ítalíu

214 landsleikir! Akureyringarnir Birkir Bjarnason og Aron Einar Gunnarsson fyrir leikinn gegn Portúgal á Laugardalsvelli á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringurinn Birkir Bjarnason, leikjahæsti landsliðsmaður karlalandsliðsins í knattspyrnu, er á leið til Brescia á Ítalíu skv. heimildum Akureyri.net.

Birkir skrifar senn undir samning til eins árs við Brescia. Hann þekkir vel til þar á bæ; lék með liðinu veturinn 2020 til 2021.

  • Birkir Bjarnason á að baki 113 landsleiki fyrir A-landslið Íslands og gaman er að rifja upp að tveir Akureyringar eru í hópi þeirra leikjahæstu. Fyrirliðinn, Aron Einar Gunnarsson, hefur tekið þátt í 101 landsleik. Rúnar Kristinsson lék á sínum tíma 104 sinnum með landsliðinu og Birkir Már Sævarsson var með í 103 landsleikjum. 

Birkir, sem er 35 ára, hefur leikið með norska liðinu Viking frá Stavanger – þar sem hann hóf ferilinn í meistaraflokki – eftir að hann fékk sig lausan frá Adana Demirspor í Tyrklandi fyrr á árinu.

Brescia féll úr ítölsku B-deildinni í vor en heldur að öllum líkindum sætinu þrátt fyrir það vegna fjárhagsvandræða Reggina eftir því sem Akureyri.net kemst næst.

  • LANDSLEIKJAMETIÐ – Birkir sló leikjamet Rúnars Kristinssonar með A-landsliðinu 14. nóvember 2021 þegar Ísland mætti Norður-Makedóníu í Skopje í undankeppni heimsmeistaramótsins og var fyrirliði í leiknum; það var 105. landsleikur Birkis. Fyrsti leikur Birkis með A-landsliðinu var á Laugardalsvelli 29. maí 2010, þegar Ísland vann Andorra 4:0 í vináttuleik.

Akureyri.net birti myndasyrpu frá ferli Birkis þegar hann sló landsleikjametið. Smellið hér til að sjá myndirnar.