Fara í efni
Íþróttir

Bestur hjá Völsungi - næstu þrjú ár hjá KA

Bárðdælingurinn og Völsungurinn Jakob Héðinn Róbertsson, sem valinn var besti leikmaður Völsungs á nýliðnu tímabili, skoraði 13 mörk í deild og bikar og var á meðal markahæstu leikmanna deildarinnar, er genginn til liðs við KA. Þetta tilkynntu bæði félögin á miðlum sínum í dag. Jakob Héðinn semur við knattspyrnudeild KA út tímabilið 2028, eða til þriggja ára.

Jakob er tvítugur, en hann kom í fyrsta skipti við sögu með meistaraflokki Völsungs 15 ára gamall og skoraði sitt fyrsta mark nokkrum dögum eftir 16 ára afmælið. Frá því er sagt á vef KA að Jakob Héðinn feti hér í fótspor föður síns, Róberts Ragnars Skarphéðinssonar, sem lék með KA 1997-2002. 

„Jakob hefur vakið verðskuldaða athygli með liði Völsungs og verður virkilega spennandi að fylgjast með framgöngu hans,“ segir meðal annars í frétt KA. „Eðlilega skapaðist mikill áhugi á Jakobi eftir framgöngu hans í sumar og er það afar jákvætt að hann hafi valið að ganga í raðir KA. Jakob er ákaflega spennandi leikmaður sem við trúum að muni eflast enn frekar í okkar metnaðarfulla umhverfi ...“

Frétt á vef KA.