Fara í efni
Íþróttir

Aron Einar valinn í landsliðið á ný

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarinn Aron Ein­ar Gunn­ars­son, fyr­irliði ís­lenska karla­landsliðsins í knatt­spyrnu um ára­bil, er í landsliðshópnum fyr­ir kom­andi lands­leikja­glugga. Þá eru tveir leikir á dagskrá. Aron Einar á að baki 97 landsleiki þannig að ef allt fer að óskum nær hann 100 leikja markinu í næstu leikjatörn. Hópurinn var tilkynntur laust eftir hádegi.

KA-maðurinn Birkir Bjarnason er að sjálfsögðu í hópnum líka. Birkir hefur verið fyrirliði liðsins undanfarið en fram kom á fundinum að Aron Einar taki við fyrirliðabandinu á ný.

Aron Einar lék síðast fyr­ir Ísland í júní 2021, vináttu­lands­leik gegn Póllandi í Pozn­an. Ríkissaksóknari felldi á dögunum endanlega niður mál gegn honum og Eggert Gunnþóri Jónssyni en á síðasta ári lagði kona fram kæru gegn þeim vegna kynferðisbrots eftir landsleik í Kaupmannahöfn árið 2010.

Ísland mætir Venesúela í vináttuleik fimmtudaginn 22. september á Motion Invest Arena í Vínarborg og Albaníu í Þjóðadeild UEFA þriðjudaginn 27. september á Air Albania Stadium í Tirana í Albaníu.

Ísland er sem stendur í öðru sæti riðilsins í Þjóðadeild UEFA og á enn möguleika á að komast upp í A deild, en Ísrael og Albanía mætast laugardaginn 24. september. Ísrael er í efsta sæti riðilsins með fimm stig, Ísland í öðru með þrjú og Albanía í þriðja með eitt stig. Ísrael og Ísland hafa leikið þrjá leiki en Albanía tvo.

Hópurinn

 • Patrik Sigurður Gunnarsson - Viking FK - 1 leikur
 • Rúnar Alex Rúnarsson - Alanyaspor - 17 leikir
 • Elías Rafn Ólafsson - FC Midtjylland - 4 leikir
 • Daníel Leó Grétarsson - Slask Wroclaw - 10 leikir
 • Hjörtur Hermannsson - Pisa - 25 leikir, 1 mark
 • Hörður Björgvin Magnússon - Panathinaikos - 41 leikur, 2 mörk
 • Davíð Kristján Ólafsson - Kalmar FF - 7 leikir
 • Guðlaugur Victor Pálsson - D.C. United - 29 leikir, 1 mark
 • Alfons Sampsted - Bodo/Glimt - 13 leikir
 • Aron Einar Gunnarsson - Al Arabi - 97 leikir, 2 mörk
 • Hákon Arnar Haraldsson - FC Köbenhavn - 3 leikir
 • Ísak Bergmann Jóhannesson - FC Köbenhavn - 13 leikir, 1 mark
 • Þórir Jóhann Helgason - Lecce - 12 leikir, 2 mörk
 • Stefán Teitur Þórðarson - Silkeborg IF - 12 leikir, 1 mark
 • Birkir Bjarnason - Adana Demirspor - 110 leikir, 15 mörk
 • Aron Elís Þrándarson - OB - 14 leikir, 1 mark
 • Mikael Neville Anderson - AGF - 14 leikir, 1 mark
 • Jón Dagur Þorsteinsson - OH Leuven - 21 leikur, 4 mörk
 • Mikael Egill Ellertsson - Spezia Calcio - 6 leikir
 • Arnór Sigurðsson - IFK Norrköping - 21 leikur, 2 mörk
 • Alfreð Finnbogason - Lyngby BK - 61 leikur, 15 mörk
 • Andri Lucas Guðjohnsen - IFK Norrköping - 9 leikir, 2 mörk
 • Sveinn Aron Guðjohnsen - IF Elfsborg - 16 leikir, 1 mark