Fara í efni
Íþróttir

Almarr semur við Valsmenn!

Almarr Ormarsson fagnar síðasta markinu í búningi KA, gegn HK á Akureyri síðasta haust. Sveinn Marge…
Almarr Ormarsson fagnar síðasta markinu í búningi KA, gegn HK á Akureyri síðasta haust. Sveinn Margeir Hauksson til hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Almarr Ormarsson, fyrirliði knattspyrnuliðs KA síðustu ár, hefur samið við Íslandsmeistara Vals til tveggja ára. Almarr, sem varð 33 ára í gær, var samningslaus.

„Knattspyrnudeild Vals og Almarr Ormarsson hafa komist að samkomulagi um að Almarr leiki með félaginu næstu tvö árin. Þessi öflugi og reynslumikli leikmaður hefur leikið yfir 300 leiki með meistaraflokki og skorað í þeim yfir 60 mörk. Hann á einnig að baki fjölmarga leiki fyrir yngri landslið Íslands," segir í tilkynningu Valsmanna í dag. „Það er frábært fyrir Val að fá þennan öfluga leikmann í félagið, við bjóðum Almarr velkominn á Hlíðarenda.“

Á ferli sínum hefur Almarr skorað 39 mörk í 231 leik í efstu deild en alls á hann að baki 357 meistaraflokksleiki á Íslandsmóti, bikarkeppni, Evrópukeppni og um nafnbótina Meistari meistaranna, og mörkin eru alls 62.

Almarr er uppalinn KA-maður og lék með meistaraflokki félagsins frá 2005 en gekk til liðs við Fram um mitt sumar 2008 og var á mála hjá félaginu til 2013. Almarr lék síðan með KR 2014 og 2015, aftur með KA 2016 og 2017, með Fjölni 2018 og aftur með KA 2019 og 2020.