Akureyrsku liðunum spáð slöku gengi í vetur

Handboltavertíðin er handan við hornið og keppni hefst í efstu deildum karla og kvenna í vikunni. Að þessu sinni eru öll akureyrsku liðin í efstu deild, eftir að KA/Þór vann næstefstu deildina kvennamegin með miklum yfirburðum á síðasta tímabili og Þórsarar báru sigur úr býtum í næstefstu deild karla. Nýlega var birt spá þjálfara og fyrirliða liðanna í efstu deild og óhætt er að segja að þeir hafi takmarkaða trú á gengi akureyrsku liðanna.
Í efstu deild kvenna eru 8 lið og þar kemur lítið á óvart að Valskonum er spáð efsta sætinu. Valur fékk 142 stig í spánni en stúlkunum í KA/Þór er spáð sjöunda og næstneðsta sæti. Þær fengu 45 stig, aðeins tveimur fleiri en Selfyssingar í neðsta sæti spárinnar.
Lið KA olli nokkrum vonbrigðum karlamegin á síðasta tímabili og var í neðri hluta deildarinnar. Ekki virðast forráðamenn liðanna búast við bætingu í ár, því strákunum í KA er spáð 10. sæti af 12 liðum. KA fékk alls 91 stig og í sætinu fyrir neðan eru nágrannarnir í Þór með 66 stig. Og eins og í efstu deild kvenna er Selfyssingum spáð neðsta sæti en þeir fengu 41 stig í spánni. Og rétt eins og kvennamegin er búist við því að Valur hampi efsta sætinu en Valsmenn fengu 359 stig í spánni.
Þó að þessi spá líti ekki vel út fyrir akureyrsku liðin þá er það nú samt árangurinn inni á handboltavellinum sem ræður úrslitum um hvar liðin enda í deildinni þegar upp er staðið og það er eflaust fullur vilji í herbúðum liðanna að afsanna þessa spádóma.
Eins og áður segir er handboltavertíðin að fara í gang í vikunni. Þórsarar hefja leik í efstu deild karla á föstudagskvöldið, þegar ÍR-ingar koma í heimsókn í Höllina. KA-menn fara suður á Selfoss á laugardaginn og KA/Þór tekur á móti Stjörnukonum í KA heimilinu á sunnudaginn.