Fara í efni
Íþróttir

Ákall til Akureyringa um að styðja stelpurnar

Ákall til Akureyringa um að styðja stelpurnar

Haraldur Ingólfsson, liðsstjóri knattspyrnuliðs Þórs/KA og mikill áhugamaður um knattspyrnu kvenna, hvetur Akureyringa til þess að styðja við bakið á liðinu í mikilvægri lokabaráttu Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins.

Haraldur upplýsir, í grein sem birtist á Akureyri.net í morgun, að með styrk frá stuðningsmanni félagsins hafi stjórn þess ákveðið að frítt verði fyrir alla á síðustu þrjá heimaleiki Þórs/KA - sá fyrsti þeirra er á morgun þegar lið Þróttar kemur í heimsókn.

Haraldur spyr í greininni hvers vegna fólk ætti að mæta á völlinn og „hvetja stelpurnar okkar áfram?“ og svarar að bragði: „Af því að þær eru einmitt það, stelpurnar okkar.“

Hann segist geta fullyrt að uppeldisstefnan hjá Þór/KA og yngri flokka starfið hjá Þór og KA hafi skilað mörgum frábærum leikmönnum, jafnt inn í okkar lið, önnur lið á Íslandi og í atvinnumennsku hjá liðum erlendis. „Í leikmannahópnum hjá Þór/KA er einn erlendur leikmaður, ein sem er að láni að sunnan og ein sem er uppalin hjá Völsungi á Húsavík, en allar hinar eru úr Akureyrarfélögunum. Ég fullyrði að þó leitað væri í öllum liðum, kvenna og karla, í öllum deildum á Íslandi að fá félög tefla fram álíka hópi heimaræktaðra leikmanna og Þór/KA. Auk þess erum við einnig með eitt af yngstu liðum landsins og mikinn efnivið í yngri flokkum.“

Smellið hér til að lesa grein Haraldar.