Fara í efni
Íþróttir

Afspyrnuslæm helgi knattspyrnuliðanna

Birnir Snær Ingason gerði seinna mark KA í Garðabæ - Bríet Fjóla Bjarnadóttir stöðvuð ólöglega af varnarmanni Stjörnunnar - Ibrahima Balde gerði fyrra mark Þórs á Selfossi. Myndir: Ármann Hinrik og Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnulið bæjarins riðu ekki feitum hesti frá kappleikjum helgarinnar. Uppskeran var í stuttu máli engin, bæði KA og Þór/KA töpuðu  leik í efstu deild Íslandsmótsins vegna „flautumarks“ – þar sem andstæðingurinn skoraði á lokaskúndunum – og Þórsarar féllu úr efsta sæti Lengjudeildarinnar niður í það þriðja.

 

Grátlegt tap KA í Garðabænum

Það var grátlegur klaufaskapur KA-manna að tapa 3:2 fyrir Stjörnunni í Garðabæ. KA var mun betra liðið í fyrri hálfleik og náði forystu með marki Hallgríms Mars Steingrímssonar á síðustu andartökunum. Brotið var á Hallgrími í vítateignum og hann skoraði öruggulega úr vítaspyrnu.

Áfram höfðu KA-menn frumkvæðið í seinni hálfleik og Birnir Snær Ingason kom þeim í 2:0 með laglegu marki þegar aðeins sex mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Þetta var fyrsta mark Birnis fyrir félagið.

Stjörnumönnum óx ásmegin eftir þrefalda skiptingu en KA-strákarnir gáfu eftir þegar á leið. Benedikt V. Warén minnkaði muninn á 74. mín. og Andri Rúnar Bjarnason jafnaði fyrir Garðbæinga úr víti þegar 10 mín. voru eftir.

Eftir að tilkynnt var að uppbótartími yrði að lágmarki sex mínútur þjörmuðu Stjörnumenn nokkuð að gestum sínum. KA bjargaði einu sinni á línu og þegar aðeins fáeinar sekúndur lifðu leiks fékk Stjarnan hornspyrnu. Eftir baráttu í teignum í kjölfar hennar small boltinn í stöng og illu heilli fyrir KA-menn var Guðmundur Baldvin Nökkvason lang fljótastur að átta sig og skoraði. Það var næst síðasta spyrna leiksins; um leið og KA hóf leik á miðju var leikurinn flautaður af.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Ekki er ofsagt að KA-menn hafi verið óhressir með móttökurnar í Garðabæ og framkomu Stjörnumanna. Bæði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, og Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri félagsins, voru harðorðir eftir leikinn. Hallgrímur í viðtali við fótbolta.net og Sævar á samfélagsmiðlinum X.

Hallgrímur sagði meðal annars í viðtalinu: „Þetta eru mörg atriði, skila skýrslu of seint inn og þykjast ekki vita að hún eigi að koma þarna og allt óvart en voru svo nákvæmlega með á hreinu að það þyrfti ekki að skrifa undir fyrr en 45 mínútum seinna þannig okkar skýrsla birtist fyrr."

Hann segir síðan: „Stjarnan er eina liðið á landinu sem hefur völlinn skraufaþurran þegar við erum að hita upp og svo þegar við förum í spil eftir að hafa haldið bolta þá rennbleyta þeir okkur alla og sprauta inn í skýlið okkar og sprauta útum allt hérna. Þetta er bara lágkúrulegt og til skammar að félagið skuli haga sér svona. Þetta er eina liðið á Íslandi sem gerir þetta og þetta er ekki í fyrsta skiptið, þetta var nákvæmlega eins í fyrra. Eru þeir að reyna komast inn í hausinn á liðunum? Ég veit það ekki en þetta er bara ógeðslega lélegt“.

„Óþolandi þegar sömu félögin komast alltaf aftur og aftur upp með óheiðarleika gagnvart skýrslugerð og KSÍ gerir ekki neitt í því," skrifaði Sævar Pétursson á X. „Þetta á bara að vera feit sekt á félögin sem gera þetta aftur og aftur."

KA verður að vinna Vestra

Eins og margoft hefur komið fram verður deildinni skipt í tvennt að loknum 22 umferðum, sex efstu halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn og þau sex neðstu mætast einnig innbyrðis.

Keppnin um sjötta sætið er æsispennandi. FH er í fimmta sæti með 29 stig, Fram í sjötta sæti með 28 stig, eins og ÍBV sem er í sjöunda sæti. Vestri er með 27 stig í áttunda sæti og KA í níunda sæti með 26 stig.

Til að eiga möguleika á að ná hina eftirsótta sjötta sæti verður KA að sigra Vestra á heimavelli í lokaumferinni en einnig að treysta á að hvorki Fram né ÍBV fái stig. Verði KA jafnt öðru hvoru þeirra eða báðum að stigum verður orrustan töpuð því þau eru bæði með miklu betri markatölu en KA.

Fram mætir FH á útivelli í síðustu umferðinni og ÍBV sækir Breiðablik heim.

_ _ _

Framstelpurnar „stálu“ sigri í Boganum

Fram sigraði Þór/KA 2:1 í Bestu deild kvenna í Boganum þar sem Murielle Tiernan gerði sigurmarkið þegar aðeins örfáar sekúndur voru til leiksloka.

Gestirnir byrjuðu af miklum krafti og Alda Ólafsdóttir kom þeim í 1:0 eftir aðeins fjórar mínútur. Framarar höfðu þá gert harða hríð að marki heimaliðsins.  En stelpurnar okkar voru ekki lengi að svara fyrir sig; Agnes Birta Stefánsdóttir skoraði með hörkuskalla eftir hornspyrnu Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur.

Hart var barist allan tímann, fegurð leiksins var hins vegar ekki í fyrirrúmi og óhætt að segja að kappið hafi borið hana ofurliði.

ÁTTI EMMA KATE AÐ FÁ RAUTT SPJALD?
Emma Kate Young, leikmaður Fram, fékk áminningu – gult spjald – þegar 15 mín. voru eftir af leiknum fyrir að stöðva framherjann unga, Bríeti Fjólu Bjarnadóttur, sem hefði annars komist ein inn fyrir vörn gestanna. Sumir í húsinu töldu að dómarinn hefði átt að lyfta rauða spjaldinu og vísa Emmu Kate af velli en hann deildi ekki þeirra skoðun. Framarinn missti boltann klaufalega til Bríetar sem tók þegar á sprett, Emma Kate hélt í hana eins og sjá má hér að neðan en ekki liggur fyrir hvort dæmt var á það eða tæklingu.


SIGURMARKIÐ
Allt stefndi í jafntefli, og líklega hefðu það verið mjög sanngjörn úrslit, þegar Framarar sneru vörn í sókn með þeim hætti að Murielle Tiernan fékk langa sendingu fram völlinn og gerði frábærlega. Agnes Birta fylgdi Tiernan eftir en bandaríski framherjinn sneri á hana og skoraði með glæsilegu, hnitmiðuðu vinstri fótar skoti frá vítateig. Þar með sigurinn í höfn því dómarinn flautaði leikinn af nokkrum andartökum eftir að Þór/KA hóf leik að nýju á miðju vallarins.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Þrjár umferðir eru eftir þar til deildinni verður skipt í tvennt og sex efstu halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn. Þór/KA er í fimmta sæti með 21 stig og Stjarnan er í sjötta sæti með 19 stig. Síðan koma Fram með 18 og Víkingur með 16.

Þór/KA á þrjá strembna leiki eftir: liðið mætir næst Stjörnunni á útivelli, síðan Þrótti á heimavelli og loks Breiðabliki fyrir sunnan. Níu stig eru því í pottinum.

_ _ _

Þórsarar niður í þriðja sæti

Þórsarar komust í efsta sæti Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins, með glæsilegum sigri á Njarðvíkingum í 19. umferð um fyrri helgi. Njarðvíkingar voru á toppnum fyrir leikinn en Þórsarar unnu fimmta leikinn í röð og hrepptu toppsætið. Þeir voru hins vegar skotnir niður í þriðja sæti aftur á laugardaginn þegar Selfyssingar, sem eru í harðri fallbaráttu, höfðu betur á heimavelli, 3:2.

Þór var sterkara liðið fyrri hluta leiksins og réttlætinu var fullnægt þegar Ibrahima Balde geri fyrsta markið skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Staðan 1:0 fyrir Þór að honum loknum.

Aron Fannar Birgisson og Harley Bryn Willard, fyrrum leikmaður Þórs, skoruðu fyrir Selfoss með skömmu millibili snemma í seinni hálfleik. Heimamenn þar með komnir yfir en Sigfús Fannar Gunnarsson jafnaði eftir rúmlega klukkutíma leik úr víti sem dæmt var þegar brotið var á honum í góðu færi. Staðan 2:2 og útlit var fyrir að sú yrði niðurstaðan þegar Aron Luca Vokes skoraði þriðja mark Selfossliðsins,  sem þar með komst upp úr fallsæti en markið gerði það að verkum að Þór fékk ekkert stig, er því enn með 39, og er þar með einu stigi á eftir Njarðvík og tveimur á eftir Þrótti þegar tvær umferðir eru eftir.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Efsta liðið að loknum 22 umferð vinnur sér sæti í Bestu deildinni næsta sumar. Næstu fjögur fara í umspil um annað laust sæti í efstu deild.

Sex liða eiga enn möguleika á að komast upp úr Lengjudeildinni. Þetta eru leikirnir sem þau eiga eftir:

Laugardag 6. september:

  • Þór (39 stig) - Fjölnir (15 stig)
  • HK (34 stig) - (Þróttur (41 stig)
  • Keflavík (31 stig) - Njarðvík (40 stig)
  • Grindavík (18 stig) - ÍR (37 stig)

Laugardag 13. september:

  • Þróttur - Þór
  • Njarðvík - Grindavík
  • ÍR - Fylkir
  • Selfoss - Keflavík
  • Völsungur - HK