Fara í efni
Íþróttir

Ævintýralegur endir er Nökkvi tryggði Þór sigur

Bjarni Guðjón Brynjólfsson, til vinstri, gerði fyrsta mark Þórs í kvöld og Nökkvi Hjörvarsson, sem leysti Bjarna af hólmi undir lokin, tryggði liðinu mikilvægan sigur með marki á síðustu sekúndunum.

Nökkvi Hjörvarsson, 17 ára Þórsari, var hetja liðsins þegar Þór vann Ægi 3:2 í Lengjudeildinni í knattspyrnu í kvöld í Þorlákshöfn.

Nökkvi kom inn á í stað Bjarna Guðjóns Brynjólfssonar þegar þegar staðan var 2:2 og 86 mínútur liðnar af hinum hefðbundnu 90 skv. vallarklukkunni. Þótt tíminn væri naumur náði Nökkvi að snúa jafntefli í sigur og tryggja liðinu þrjú dýrmæt stig þegar hann skoraði með föstu skoti fáeinum sekúndum áður en dómarinn flautaði til leiksloka! Þá sýndi vallarklukkan 94 mínútur.

  • Þetta var aðeins í annað skipti sem Nökkvi kemur við sögu með meistaraflokki í Lengjudeildinni. Hann kom inn á sem varamaður í september 2021, aðeins 15 ára, og sá dagur er einnig eftirminnilegur; unglingurinn var nefnilega umsvifalaust gerður að fyrirliða um stundarsakir þegar Jóhann Helgi Hannesson yfirgaf völlinn í síðasta sinn á ferlinum! Smellið hér til að sjá frásögn Akureyri.net af því skemmtilega atviki. 

Það var Bjarni Guðjón Brynjólfsson sem kom Þór í 1:0 í Þorlákshöfn í kvöld þegar hann þrumaði í netið af stuttu færi eftir glæsilegan sprett og sendingu Kristófers Kristjánssonar. Aðeins þremur mín. síðar skoraði svo Alexender Már Þorláksson eftir sendingu Fannars Daða Malmquist.

Ekkert benti til annars en Þórsarar væru með leikinn í hendi sér þegar komið var fram undir miðjan seinni hálfleikinn en þá skoruðu heimamenn tvisvar með stuttu millibili og allt í einu var spenna hlaupinn í viðureignina.

Fyrst skoraði Ivo Braz úr vítaspyrnu á 68. mín. og síðan varð Bjarki Þór Viðarsson, fyrirliði Þórs, fyrir því óláni að spyrna knettinum í eigið mark þegar hann renndi sér í boltann þegar hann var sendur fyrir markið.

Það var svo í blálokin þegar skipting þjálfarateymis Þórs gekk upp á undraverðan hátt. Þórsarar voru heppnir í aðdraganda marksins því heimamenn misstu boltann afar klaufalega, en Nökki gerði vel; eftir að varnarmanni Ægis mistókst að spyrna fram fékk Marc Rochester Sörensen boltann á miðjum vellinum, lék í átt að vítateignun og sendi á Nökkva sem var utarlega í teignum vinstra megin. Nökkvi var djarfur og ákvað að skjóta sjálfur og það reyndist góð ákvörðun; hann hamraði boltann í netið með lúmsku skoti neðst í nærhornið, alveg út við stöng.

Ægismenn tóku miðju og spyrnu fram völlinn en þá var flautað til leiksloka.

Eftir sigurinn eru Þórsarar í sjöunda sæti, þremur stigum frá fimmta sæti, því síðasta sem veitir keppnisrétt í umspili fjögurra liða um eitt laust sæti í efstu deild að ári. Sex leikir eru eftir í deildinni og þar af leiðandi 18 stig í pottinum.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna