Fara í efni
Íþróttir

15 ára „fyrirliði“ og stóra systir efnilegust

Nökkvi Hjörvarsson með fyrirliðabandið eftir sigurinn á Þrótti í Reykjavík á laugardaginn og Jakobín…
Nökkvi Hjörvarsson með fyrirliðabandið eftir sigurinn á Þrótti í Reykjavík á laugardaginn og Jakobína systir hans, efnilegasti leikmaður Þórs/KA, á lokahófinu um kvöldið.

Fjölskylda systkinanna Jakobínu Hjörvarsdóttur og Nökkva Hjörvarssonar gleymir síðasta laugardegi örugglega ekki á næstunni.

Nökkvi, sem er aðeins 15 ára síðan í mars, kom í fyrsta skipti við sögu meistaraflokks Þórs á Íslandsmótinu í knattspyrnu, þegar hann lék  í liðlega 15 mínútur í 3:2 sigri á Þrótti í Reykjavík. Þegar Jóhanni Helga Hannessyni, fyrirliða Þórs í leiknum, var skipt út af undir lokin – í síðasta leiknum á ferlinum – lét hann Nökkva hafa fyrirliðabandið og sagði: Þú mátt eiga þetta! Nökkvi lék því með fyrirliðabandið á handleggnum síðustu andartökin í fyrsta leiknum.

Um kvöldið var Jakobína, sem varð 17 ára í sumar, valin efnilegasti leikmaður meistaraflokks Þórs/KA í knattspyrnu, eins og Akureyri.net hefur áður greint frá. Jakobína hefur, þrátt fyrir ungan aldur, átt fast sæti í liðinu tvö síðustu keppnistímabil.

Landslið og krossbandsslit

Jakobína á að baki sjö leiki með landsliði 16 ára og yngri og fjóra með U17 landsliðinu. Nú er sá kafli að hefjast hjá Nökkva því í gær hélt hann til Finnlands með U15 landsliðinu, þar sem það mætir Finnum í tveimur æfingaleikjum.

Ferill knattspyrnumanna er ekki alltaf dans á rósum. Jakobína fékk að kynnast því í sumar; hún meiddist á æfingu seint í júlí og í ljós kom að krossband í hné hafði slitnað. Jakobína fór í aðgerð í gær en verður vonandi komin á fulla ferð með liðinu á nýjan leik einhvern tíma næsta sumar.