Fara í efni
Íþróttir

Ætlum að njóta þess að fá að spila handbolta

KA-menn fagna dramatískum sigri á Fram í haust. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Handboltalið KA hefur keppni í kvöld eftir Covid- og HM fríið langa, þegar Afturelding kemur í heimsókn í KA-heimilið. Áhorfendur eru ekki leyfðir en leikurinn, sem hefst klukkan 19.30, verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

KA-menn hafa æft af miklum krafti undanfarið og tveir æfingaleikir eru að baki. „Við komumst suður um þar síðustu helgi, spiluðum við Stjörnuna og Fram og það var mjög gott að geta mátað sig við önnur lið eftir að hafa ekkert spilað lengi nema við sjálfan sig, ef svo má segja, á æfingum. Við unnum báða leikina, úrslitin eru í sjálfu sér aukaatriði í æfingaleikjum en við vorum heilt yfir ánægðir með frammistöðuna,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA, við Akureyri.net.

„Ekkert lið veit þó sennilega almennilega hvar það stendur fyrr en í fyrsta leik, en eitt er öruggt, að við erum orðnir spenntir að byrja aftur. Það er mikil eftirvænting í hópnum og strákarnir eru ákveðnir að njóta þess að spila handbolta. Það eru rosalega margir leikir framundan og álagið verður mikið en við ætlum að minna sjálfa okkur á að það sé skemmtilegra að fá að spila en að mega ekki spila!“ sagði Jónatan.