Fara í efni
Íþróttir

Æsispennandi er Þór og Stjarnan skildu jöfn

Brynjar Hólm Grétarsson var atkvæðamikill í Þórsliðinu að vanda. Hér skorar hann síðasta mark leiksins; jafnar 34:34 þegar tvær mínútur voru eftir. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Bæði Þórsarar og Stjörnumenn gengu vonsviknir af velli í kvöld eftir að liðin gerðu jafntefli, 34:34, í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildinni, í Höllinni á Akureyri. Eftir að gestirnir voru betri í fyrri hálfleik komust Þórsarar í kjörstöðu í þeim seinni en misstu niður gott forskot.

Fyrri hálfleikurinn var jafn en gestirnir úr Garðabænum þó skrefinu á undan og þeir höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 19:17.

Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti, þeir slógu léttleikandi og skemmtilegt Stjörnulið út af laginu með breyttri vörn og voru búnir að jafna eftir fimm mínútur.

Leikurinn var í járnum næstu 10 mínútur en Þórsarar komust yfir í fyrsti skipti um miðbik hálfleiksins, 27:26, þegar Hákon Ingi Halldórsson skoraði úr hægra horninu og fáeinum mínútum síðar voru þeir komnir fjórum mörkum yfir, 31:27, eftir mjög góðan kafla. 10 mínútur voru eftir og útlitið bjart en þá syrti í álinn hjá Þórsstrákunum; gestirnir gerðu næstu sex mörk og staðan var 33:31 fyrir Stjörnuna þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir.

Hákon Ingi Halldórsson hleypur glaðir í bragði í vörnina eftir að hann kom Þór fjórum mörkum yfir – 31:27 – þegar 12 mínútur eftir. En þá tók við afar slæmur kafli hjá Þór; Stjarnan gerði sex mörk í röð á tæpum níu mínútum.

Munurinn var enn tvö mörk, 34:32, mínútu síðar en sú ákvörðun Þórsara að spila með tvo línumenn skilaði sér strax; Kári Kristján Kristjánsson skoraði af línunni og eftir að Oddur Gretarsson stal boltanum af Stjörnumanni jafnaði Brynjar Hólm Grétarsson, 34:34, og lifði þá ein mínúta leiks.

Þjálfarar Stjörnunnar tóku leikhlé og bjuggu sína menn sem best þeir máttu undir lokakaflann og þegar leikar hófust á ný kom í ljós að þeir hugðust leika sjö í sókn gegn sex varnarmönnum. Ekki varð þeim þó kápan úr því klæðinu því Baldur Ingi Pétursson markvörður var innan vallar, auk samherjanna sjö, þegar sóknin hófst og það fór ekki framhjá starfsmönnum leiksins. Honum var vikið af velli og Þór dæmdur boltinn. Skyndilega var heimaliðið með pálmann í höndunum, einum fleiri og lítið eftir, en Þórsarar misstu boltann klaufalega og á lokasekúndunni fékk Stjarnan aukakast fyrir utan miðjan vítateig Þórs. Hans Jörgen Ólafsson tók lokaskotið en kom boltanum ekki framhjá varnarveggnum. 

Lokaskotið; Hans Jörgen Ólafsson freistaði þess að tryggja Stjörnunni sigur með skoti úr aukakasti þegar ein sekúnda var eftir. Það tókst ekki, Hafþór Inga Halldórsson, lengst til vinstri í veggnum, varð skotið.

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 8, Hákon Ingi Halldórsson 5, Þórður Tandri Ágústsson 5, Oddur Gretarsson 5 (1 víti), Hafþór Már Vignisson 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 2, Igor Chiseliov 1, Þormar Sigurðsson 1, Kári Kristján Kristjánsson 1.

Varin skot: Nikola Radovanovic 14, þar af 1 víti (32,5%), Patrekur Guðni Þorbergsson 2 (28,6%)

Þórsarar eru í 10. sæti með þrjú stig að loknum fimm leikjum. Næsta viðureign Þórs í deildinni verður gegn FH-ingum í Hafnarfirði, fimmtudaginn 9. október.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz

  • Rétt er að nefna tölfræði HB Statz er ekki alls kostar rétt. Kári Kristján Kristjánsson er til dæmis ekki skráður með mark en gerði þó sannarlega 33. mark Þórs en ekki Brynjar Hólm eins og skráð er.
  • Tölfræðin varðandi Stjörnuna er heldur ekki trúverðug þannig að réttast er að sleppa því að birta hana að svo stöddu.