Vínsjálfsali tryggir ferskleika og gæði
Akureyri Backpackers hefur tekið í notkun nýja vínsjálfsafgreiðsluvél sem gerir gestum kleift að velja um allt að átta víntegundir. Þá þurfa gestir ekki heldur að kaupa heilt glas heldur geta smakkað margar mismunandi tegundir, allt niður í 25 ml einingar.
„Þetta er bæði skemmtileg nýjung og mikil gæðabót,“ segir Siguróli „Moli“ Kristjánsson, einn eigenda Akureyri Backpackers, þegar hann er spurður út í vínsjálfsafgreiðsluvélina sem sett var upp á staðnum nýverið. Um er að ræða vél sem getur boðið upp á vín úr allt að átta vínflöskum í einu. Vélin heldur vínunum við kjörhitastig, sex gráður fyrir hvítvín og 16 gráður fyrir rauðvín og notar köfnunarefni eða argon [óvirkar, bragðlausar lofttegundir] til þess að verja vínið gegn súrefni og þar með oxun. „Þannig helst bragð og ilmur óbreyttur og opnar flöskur halda gæðum sínum miklu lengur. Með þessu náum við alltaf að bjóða upp á gott úrval af víni í toppstandi,“ útskýrir Moli.
Inneignarkort í vélina
Gestir þurfa að fara á barinn og kaupa þar sérstakt inneignarkort af starfsmanni staðarins sem tryggir að kortahafi sé kominn með aldur fyrir víndrykkju. Korthafar geta síðan valið vín og skammtastærð eftir eigin höfði úr vélinni en þrjár skammtastærðir eru í boði; 25 ml, 75 ml og 150 ml. „Þannig getur fólk smakkað ný vín án þess að þurfa að kaupa heilt glas, eða prófað nokkur vín í einni setu. Þetta er nýr og skemmtilegur vinkill í vínmenninguna,“ segir Moli.

„Það eru ekki nema 30-40 ár síðan við Íslendingar byrjuðum að drekka léttvín og þetta er bara næsta skref sem snýst um gæði og upplifun í stað magns,“ segir Moli einn af eigendum Backpackers um nýju sjálfsafgreiðsluvélina.
Snýst um gæði og upplifun
Eins og er þá eru fjórar hvítvínstegundir og fjórar rauðvínstegundir í vélinni en auðveldlega má skipta þeim út og bjóða til dæmis upp á þemadaga þar sem einungis eru vín í boði frá ákveðnum framleiðanda, héraði eða álíka. Að sögn Mola er engin viðlíka vínsjálfafgreiðsluvél í boði á Akureyri og því um skemmtilega nýjung að ræða fyrir vínáhugafólk. „Það var á tímabili vínsjálfsafgreiðsluvél á Icelandair hótelinu, þegar það var og hét, en tækninni í þessu hefur fleygt fram í þessu og þessi vél er það nýjasta. Það eru ekki nema 30-40 ár síðan við Íslendingar byrjuðum að drekka léttvín og þetta er bara næsta skref sem snýst um gæði og upplifun í stað magns,” segir Moli. Þess má geta að Backpackers stendur nú fyrir nafnasamkeppni á vínsjálfsafgreiðslubarinn.